138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:13]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hygg nú að lokaorð hv. þingmanns lýsi því kannski hversu mikill hiti hefur hlaupið í umræðuna skyndilega í dag og að menn hafa kannski á köflum misst sig. Mér hefur sjálfum þótt á stundum að siglt væri býsna nærri æru ágæts embættismanns sem starfað hefur í almannaþágu um áratugaskeið við góðan orðstír. Fagnaði ég því alveg sérstaklega þegar ég heyrði hv. þingmann nefna að hann vildi láta þann embættismann njóta vafans og hlusta á yfirlýsingar hans og yfirlýsingar hæstv. utanríkisráðherra í þessu efni. Þess vegna fannst mér miður að hann færi síðan ekki rétt með fund fjárlaganefndar hér í morgun því að það var ekki þannig að fyrrverandi formaður samninganefndarinnar neitaði að koma, heldur, eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson hefur upplýst, ákvað formaður fjárlaganefndar að leita eftir því við hann að hann skilaði skriflega inn viðbrögðum sínum. Það er aðferð sem við höfum haft þegar við höfum þurft að kalla til fyrrverandi trúnaðarmenn okkar eins og þau Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Geir Hilmar Haarde. Við vorum sammála um að það færi best á því þegar fólk sem látið hefur af störfum og væri kallað fyrir vegna þessara mála, að kalla eftir því skriflega og ég held að það hafi farið vel á því núna í morgun. Ég vildi fá að nota þetta tækifæri til þess að leiðrétta þetta hjá hv. þingmanni því að þarna fer hann einfaldlega ekki rétt með, yfirlýsing formanns fjárlaganefndar var alveg skýr um þetta efni hér í upphafi umræðunnar.