138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:37]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Síðasti sólarhringur hefur verið algjörlega með ólíkindum og líklega þurfum við einhvern tíma til þess að jafna okkur á því sem hér hefur verið að gerast af því að það er svo skrýtið að upplifa þennan tíma. Það er algjörlega með ólíkindum að við fáum talsvert mikið af nýjum gögnum á síðustu metrunum. Þetta eru gögn sem hræra allverulega upp í okkur. Það er gríðarlega óþægilegt að upplifa þessa stöðu. Ég er ekki sátt við það, virðulegur forseti.

Ég hafði tekið mig út af mælendaskrá í gær, hélt að málið væri búið. Það var búið að semja um að greiða atkvæði og þetta var bara allt klappað og klárt. Ég hafði talað við 2. umræðu og mér fannst ég hafa sagt nokkurn veginn það sem ég vildi segja í þessu máli. Síðan hefur bara allt umturnast. Það er komin upp algjörlega ný staða í þessu máli að mínu mati. Þannig líður mér, það er mín sýn. Ég veit að það eru margir ekki sammála þessu. Stjórnarliðar segja: Þetta er ekkert nýtt, hvað eruð þið að kvarta og kveina hérna, nú þarf bara að drífa sig í að klára þetta. Ég er ósammála því mati. Hér hafa mjög miklir atburðir átt sér stað og það er mjög óþægilegt að vera í þessari stöðu, virðulegi forseti.

Það er ýmislegt nýtt sem hefur komið fram. Ég ætlaði að gera talsvert mál úr því sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson sagði við atkvæðaskýringu í ágúst þegar við gengum frá Icesave-málinu. Þá sagði hv. þm. Guðbjartur Hannesson að hann hefði fullvissu fyrir því að fyrirvararnir héldu. Það stakk mig talsvert þegar þessi orð féllu í ágúst. Ég hugsaði með mér: Að sjálfsögðu hefur utanríkisþjónustan og þessir blessuðu hæstv. ráðherrar allir haft samband út, þetta er allt frágengið meira eða minna á bak við tjöldin og við getum lagt þetta mál til hliðar, þessir fyrirvarar halda. Síðan kemur í ljós í umræðunni í fyrradag að hv. þm. Guðbjartur Hannesson segist hafa haft upplýsingar um það eftir einhverja ráðgjöf frá málsmetandi mönnum, eins og hann kaus að orða það, að fyrirvararnir mundu ekki halda. Það hefði verið gengið of langt, af því að við kröfðumst þess að Bretar og Hollendingar mundu fallast á fyrirvarana skilyrðislaust af sinni hálfu. Eftir að Guðbjartur Hannesson sagði þetta velti ég fyrir mér: Getur verið að það sé rétt að ef við hefðum ekki sett þennan — ég segi „við“ óvart, ég á hér við Íslendinga, af því ekki stóðum við framsóknarmenn að þessum fyrirvörum. Ef Alþingi hefði ekki sett þennan fyrirvara um að Bretar og Hollendingar ættu að fallast á okkar fyrirvara, ef við hefðum nú bara sleppt því eða ekki gengið svo langt, værum við þá í allt öðrum sporum í dag? Var það þetta sem „tippaði“ málinu yfir eða hvað? Það gæti verið.

Kannski gengu menn of langt og ef settir hefðu verið fyrirvarar sem héldu þyrftum við kannski ekki að vera að ræða þetta mál. En það er mjög erfitt að spá í kristalskúluna þar sem það verður aldrei hægt að sanna neitt í þessu máli.

Síðan kemur bréf í gær sem varð til þess að ég þurfti að setja mig á mælendaskrá, virðulegi forseti, af því mér fannst þetta bréf vera með algerum ólíkindum. Stjórnarsinnar segja: Þetta var nú ekkert merkilegt bréf, það kom ekkert nýtt fram í því o.s.frv. Það er bara algjörlega rangt. Þetta er bréf sem kemur frá lögmannsstofunni Mishcon de Reya. Þar kemur fram að það er heilmikið til af gögnum sem ekki eru á island.is og þeir koma því sérstaklega á framfæri að þessi gögn geti varpað ljósi á Icesave-málið, sem Alþingi gæti viljað skoða betur áður en endanleg ákvörðun er tekin. Af hverju er lögmannsstofan að koma þessu sérstaklega á framfæri? Mér finnst þetta mjög merkilegt, það stakk mig verulega að sjá þetta.

Svo kemur þessi skrýtni kafli um samskipti Svavars Gestssonar, sendiherra Íslands í Danmörku, og hæstv. utanríkisráðherra Össurar Skarphéðinssonar um að Svavar Gestsson hafi beðið um að ákveðin gögn yrðu tekin úr kynningu fyrir hæstv. utanríkisráðherra. Mjög skrýtið mál. Svo koma hérna ýmis önnur atriði sem ég hef ekki tíma til þess að fara yfir í stuttri ræðu, virðulegur forseti. Bréfið er undirritað af Mike Stubbs sem starfar á þessari lögmannsskrifstofu. Það er sami maðurinn og hefur verið að senda tölvupósta hingað í allan dag að beiðni Alþingis. Þetta bréf kom sem sagt í gær. Það var verulega óþægilegt að fá þetta bréf, af því þetta hrærði svo mikið upp í manni.

Ekki var allt búið þrátt fyrir þetta. Í dag hefur síðan komið fullt af tölvupósti og maður verður bara meira og meira hissa þegar maður fer að skoða þessa tölvupósta. Hvað er hér á seyði? Tölvupóstarnir pumpast út, þingið bað um þá og þeir innihalda upplýsingar sem eru verulega óþægilegar fyrir ríkisstjórnina.

Ég verð að segja líka, virðulegur forseti, mér finnast þessir tölvupóstar talsvert óþægilegir fyrir þá sem hér stendur. Mér finnst erfitt að lesa þá. Mér finnst vont að lesa þá. Mér finnst vont að sjá að þessi samningagerð skuli hafa verið byggð á allt of veikum grunni, það er þannig sem ég upplifi þessa tölvupósta. Ég velti fyrir mér — ég hef kannski ekki nógu mikla reynslu í svona samningagerð sjálf: Fer gerð samninga svona fram? Maður fær innsýn í einhverja samningagerð sem maður gat ekki gert sér í hugarlund hvernig væri. Þetta virðist allt vera byggt á svo veikum grunni og þessi samskipti virðast vera svo veik. Það segja mér þessir tölvupóstar. Mér finnst verulega óþægilegt að upplifa þetta. Er íslensk stjórnsýsla ekki sterkari en þetta? Var samningagerðin ekki sterkari en þetta? Ég vil helst ekki trúa því. En þessir tölvupóstar fá mig til þess hugsa á þessum nótum.

Síðan kemur það upp að forseti Alþingis, hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, stoppar tölvupóstssendingarnar. Það kom mér talsvert á óvart af því að ég hélt að menn vildu fá upplýsingar hingað inn til þingsins og þetta eru upplýsingar sem skipta að mínu mati máli. Menn deila um það, en að mínu mati skipta gera þær það. Það var brugðið á það ráð að stoppa tölvupóstana. Annaðhvort finnst ríkisstjórnarflokkunum svo óþægilegt að fá þessa tölvupósta vegna þess að þeir telja að þetta geti skaðað hagsmuni Íslands mikið eða að þetta geti skaðað þeirra hagsmuni mikið, hvað veit ég? Þetta auðvitað allt ágiskanir, ekki hef ég heyrt einhverjar beinar skýringar á þessu. Ég veit ekkert á hverju er von í þeim tölvupóstum sem ekki hafa komið en það var brugðið á það ráð að stoppa þetta af. Mér finnst mjög athyglisvert að sjá að það hafi verið gert.

Í dag kl. 14.25 sendi starfsmaður þingsins út tölvupóst frá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, þar sem beðið er um að ekki verði frekari framsendingar á tölvupóstum frá Mishcon de Reya. Það er sem sagt bara þaggað niður í þeim: Við viljum ekki meira hér, enga fleiri tölvupósta, takk. Átta mínútum síðar, eða kl. 14.33, svarar Mike Stubbs fyrir hönd Mishcon de Reya þar sem hann kemur því á framfæri að hann telji að yfirlýsingar Svavars Gestssonar sendiherra sem komu opinberlega fram í morgun, séu „not quite right“ eins og það er orðað, ekki alveg réttar. Það er mjög breskt að segja þetta. Hann segir að hann vilji „útbúa viðbrögð“, „short response“, eða svara stuttlega þessari yfirlýsingu Svavars Gestssonar. Mike Stubbs hjá Mishcon de Reya er ósáttur við að sitja eftir án þess að geta svarað fyrir sig, ef svo má segja, af því að nú er þingið búið að stoppa tölvupóstssendingar: Við viljum ekkert vita meira hérna. Takk fyrir. Stopp.

Síðan níu mínútum síðar, kl. 14.42, sendir starfsmaður þingsins aftur tölvupóst og segir: Jú, þið hafið frelsi til þess að koma með viðbrögð við yfirlýsingu Svavars Gestssonar en það er alveg ljóst að Alþingi hefur ekki beðið um það. Það er alveg greinilegt að Mike Stubbs er ekki sáttur við þessi málalok og 11 mínútum síðar, 14.53, sendir hann tölvupóst til þingsins eða til viðkomandi starfsmanns sem er í tölvupóstssamskiptum við stofuna. Ég ætla bara að lesa þetta, virðulegur forseti:

„Thanks Sigrun, but looking at what Svavar seems to have said, I think I must do so.“

Þetta er mjög breskt orðalag líka. Sem sagt: Takk Sigrún, eftir að hafa skoðað hvað Svavar segir held ég að ég verði að útskýra. Þessi samskipti milli Svavars Gestssonar, Össurar og þessarar lögmannsstofu, sem hafa verið svo mikið til umræðu hér, hef ég ekki náð að fara neitt yfir.

Svo kemur yfirlýsing frá Mishcon de Reya þar sem þeir reyna að útskýra mál sitt eftir að þingið er búið að segja: Stopp, við viljum ekki fleiri tölvupósta. Takk fyrir, þetta er komið nóg, þetta er óþægilegt, nú má ekki koma meira frá ykkur. Þá kemur yfirlýsing eða „statement“ Mishcon de Reya klukkan 16.01. Hún er send á fjárlaganefnd og hv. þm. Guðbjart Hannesson. Þar er hrakið meira eða minna allt sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa verið að segja í þessu máli. Því er komið sérstaklega á framfæri að í yfirlýsingu Svavars Gestssonar sé ekki verið að hrekja það sem Mishcon de Reya sendi í bréfi í gær varðandi þá kynningu sem fór fram fyrir Össur Skarphéðinsson, hæstv. utanríkisráðherra. Það er sérstaklega, eins og maður getur skoðað í yfirlýsingu Mishcon de Reya frá því klukkan fjögur í dag, að Svavar Gestsson sendiherra sneiði sérstaklega hjá þeirri áleitnu spurningu sem var uppi um hvort teknar hefðu verið ákveðnar upplýsingar út úr kynningarsýningunni fyrir hæstv. utanríkisráðherra eða ekki. Þeir halda standa við sitt og segja að þetta hafi verið gert. Í gær kom fram hjá hæstv. utanríkisráðherra Össuri Skarphéðinssyni að hann hefði aldrei fengið þessa kynningu yfirleitt. Með leyfi virðulegs forseta segir Össur Skarphéðinsson, hæstv. utanríkisráðherra, í gær:

„Nei, ég fékk aldrei kynningu á þessu. Aldrei.“

Í yfirlýsingunni kemur þó fram að hæstv. utanríkisráðherra fékk þessa kynningu 31. mars á morgunverðarfundi í Rib Room á Jumeirah Carlton Tower Hotel. Þetta var sem sagt skömmu fyrir fund hans ásamt David Miliband, utanríkisráðherra Breta. Þeir segja: Jú, þessi kynning fór fram, og þeir telja upp hverjir voru á þessari kynningu. Þar er fyrstur á listanum Össur Skarphéðinsson, hæstv. utanríkisráðherra. Svo koma embættismenn og aðstoðarmenn sendiherra og þessi títtnefndi Mike Stubbs frá Mishcon de Reya og fleiri. Þeir hrekja í þessari nýju yfirlýsingu Mishcon de Reya það sem kom fram í dag hjá ríkisstjórnarflokkunum og í gær.

Svo er nú eitthvað í þessari yfirlýsingu sem ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekkert á. Það er að þessi lögmannsstofa er hér í lið 5, 6 og 7, alla vega í lið 5 og 7 — það er auðvitað ekki búið að þýða þetta á íslensku frekar en ýmis ný gögn sem komið hafa en maður reynir samt að greiða úr þessu. Ég treysti mér ekki til þess að lesa allt þetta upp á ensku og þýða jafnóðum, þetta er það mikið efni. En ég hef á tilfinningunni eftir að hafa lesið þetta að þessi lögmannsskrifstofa sé að verjast hérna því að hún er hugsanlega ásökuð um það frá ríkisstjórn Íslands að hafa lekið miklum trúnaðarupplýsingum. Ég skil þetta ekki öðruvísi. Það er verið að fjalla um hvar þessar trúnaðarupplýsingar eru, að Svavar Gestsson sendiherra hafi fengið þessar trúnaðarupplýsingar og tveir aðrir starfsmenn. Þeir hafi líka tekið ljósrit af þessum skjölum og menn geti, ef beðið er um það, fengið eiðsvarnar yfirlýsingar frá lögfræðingunum sem voru á þessum fundi um að þeir hafi ekki lekið þessum upplýsingum. Ég átta mig bara ekkert á því hvað um þetta mál fjallar nú um eða hvað hér er á ferðinni.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að ég hélt að þetta mál væri komið á lokasprettinn. Og kannski er það komið á lokasprettinn af hálfu ríkisstjórnarinnar en af minni hálfu er því ekki lokið. Hér voru að koma ný gögn. Ég átta mig ekki á þeim öllum. Þau geta verið mjög mikilvæg. Ég tel að þetta mál sé ekki tækt til þess að ljúka því. (Forseti hringir.) Ég tel að við hefðum átt að bíða. Það liggur ekkert á þessu, við hefðum átt að bíða og taka þetta mál inn í janúar og reyna að greiða úr þessu á fyrstu (Forseti hringir.) dögunum í janúar. Þetta eru óboðleg vinnubrögð, virðulegur forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)