138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:52]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Flest var ugglaust búið að segja hér í þingsal sem hægt er að segja miðað við gögn sem liggja fyrir þótt ugglaust eigi eftir að koma ýmislegt sem ástæða er til að fjalla frekar um ef leyfi gefst. Hins vegar virðist komið að þeirri ögurstundu að hv. þingmenn Íslendinga upplifi þjóðfundarstemningu 1851. Það er ótrúlega margt líkt með því sem er að gerast í dag og síðustu daga og því sem gerðist á þjóðfundinum 1851. Frægastur er þjóðfundurinn 1851 fyrir mótmæli þingmanna þar sem allir þingmenn stóðu upp eftir að Trampe greifi hafði slitið fundi, stoppað umræður um þingsköp og slitið þingfundi í nafni konungs. Þessi ummæli eru fræg, kennd við Jón Sigurðsson. Danska stjórnin hafði boðað til fundar í Reykjavík þann 9. ágúst og lagði fram frumvarp. Þar ætluðu Danir að setja Íslendingum nýja stjórnskipan þar sem réttindi Íslendingar væru nær engin og lítið tillit tekið til óska þeirra. Þá lögðu hinir íslensku fulltrúar fram annað frumvarp að undirlagi Jóns Sigurðssonar. Konungsfulltrúanum Trampe greifa líkaði ekki frumvarp Jóns og ákvað hann að leysa fundinn upp í nafni konungs. Nú stefnir í að þessari umræðu ljúki á svipaðan hátt en núna er það í nafni virðulegs forseta Alþingis og ríkisstjórnar Íslands. Það er undarleg og skelfileg staðreynd.

Þegar fundinum var slitið 1851 mótmælti Jón Sigurðsson lögleysu fulltrúa Danakonungs, en flestir fundarmenn risu úr sætum og mæltu einum rómi: Vér mótmælum allir. Það er einn mikilvægasti atburður í baráttu Íslendinga fyrir sjálfstæði þjóðarinnar. Sjálfstæðisbaráttan einkenndist af þjóðernisvitund Íslendinga og hugmyndum um glæsta fortíð og bjarta framtíð.

Þann 8. ágúst 1851 boðaði forseti til fundar um hádegi daginn eftir en þá mundi konungsfulltrúi bera fram erindi nokkurt fyrir fundarmenn. Fundur þessi er einn hinn sögulegasti í þingsögu Íslendinga. Hann hófst á tilsettum tíma 9. ágúst. Tók Trampe þá til máls og var allþungorður í garð fundarmanna og þó einkum stjórnlaganefndarinnar. Kvað hann málum nú í óvænt efni komið, en tilgangslaust væri að halda slíku áfram og mundi hann því slíta fundinum þá þegar. Jón Sigurðsson greip fram í fyrir Trampe greifa og sagði, með leyfi forseta:

„Má ég biðja mér hljóðs til að forsvara aðgerðir nefndarinnar og þingsins?“

Páll Melsteð, forseti þingsins, neitaði því. Trampe greifi sagði: „Fundinum er slitið.“

Jón Sigurðsson sagði: „Þá mótmæli ég þessari aðferð.“ Um leið og Trampe og Páll Melsteð forseti viku frá sætum sínum mælti Trampe:

„Ég vona að þingmenn hafi heyrt að ég hef slitið fundinum í nafni konungs.“

Það var þá sem þingmenn risu úr sætum og sögu: „Vér mótmælum allir.“

Við sem erum á Alþingi Íslendinga í dag skiljum hvernig baráttumönnum Íslands var innan brjósts vegna þess að við stöndum í sömu sporum og þjóðfundurinn 1851. Við stöndum í sömu sporum og menn voru í við Kópavogsfundinn 1662 þegar einveldið gekk yfir og baráttumenn Íslands grétu.

Þetta er staðreyndin í dag (Forseti hringir.) og við þurfum að hugsa um það í fullri alvöru, virðulegi forseti.