138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen kærlega fyrir yfirferð hans í þessari ræðu. Þessi ræða er okkur Íslendingum holl áminning á þessum degi þar sem hér eiga eftir að gerast atburðir í kvöld eftir klukkan átta, sem eiga eftir að svipta okkur frelsi okkar um marga áratugi, skuldsetja þjóðina um fleiri hundruð milljarða, átta hundruð til þúsund milljarða, eftir því hvað fæst upp í eignir Landsbankans. Eins og ég benti á í ræðu áður kemur fram að slitastjórn Landsbankans hefur ein aðgang að þessu eignasafni en ekki fjárlaganefnd eða Alþingi Íslendinga, sem hefur þó fjárveitingavaldið og ríkisábyrgðarvaldið. Þessi ríkisstjórn hefur núna stöðvað upplýsingar frá Bretlandi sem þó geta hjálpað okkur í þessu erfiða máli. Jú, vissulega líður okkur eins og Íslendingum leið árið 1851.

Þingmaðurinn minntist á þá staðreynd að fundurinn var leystur upp í nafni konungs og telur að þessi fundur hér verði leystur upp í nafni ríkisstjórnar og forseta. Ég ætla að leyfa mér að mótmæla hv. þm. Árna Johnsen, því að hér er verið að leysa þennan fund upp í nafni Breta og Hollendinga með aðstoð Evrópusambandsins. Við skulum ekkert gleyma því hverjir eru hér við stjórnvölinn auk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Við skulum átta okkur á því hve slæm staðan er, hvert við erum komin, út í hvaða skurð þessi ríkisstjórn er að leiða íslensku þjóðina.

Ég hef áður sagt: Ég trúi á íslenska þjóð. Ég trúi á þrautseigju hennar og kraft en þá verður þjóðin líka að fá að sanna sig, að hún standi undir þeim væntingum sem við berum öll í brjósti, að við getum (Forseti hringir.) lifað hér í sátt og samlyndi sem frjáls þjóð.