138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:02]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek enn á ný undir hvert einasta orð sem hv. þm. Árni Johnsen flutti okkur hér. Já, þetta er vissulega skrýtið, því á sumum þjóðþingum stendur: „Með lögum skal land byggja og ólögum eyða.“ Hér í kvöld verða sett ólög. Þetta er sú ábyrgð sem þessi ríkisstjórn hefur á málinu. Hér verða sett ólög.

Við vitum alveg eftir hverju Bretar og Hollendingar eru að slægjast. Það hefur komið fram að friðhelgisréttindi þjóðarinnar eru fyrir borð borin í þessum samningum og lögum. Bretar og Hollendingar eru algjörlega auðlindasnauðar þjóðir. Þeir fá hér ríkisábyrgð hjá okkur til þess að geta gengið að auðlindum okkar. Við erum að tala um legu landsins sem gefur Evrópusambandinu aðgang inn á norðurslóðir. Við erum að tala um óveiddan fisk í sjónum. Við erum að tala um hugsanlega olíu. Við erum að tala um fallvötnin. Við erum að tala um kalda vatnið. Við erum að tala um heita vatnið. Það er þrennt sem mun vanta í heiminum eftir 30 ár, það er kalt vatn, orka og hrein matvæli. Við höfum þetta allt hér og höfum það um ókomna tíð. En nú ætla erlendir aðilar að ráðast inn í þessar náttúruauðlindir okkar með allsherjarveði í eigum ríkisins. Út á það gengur þessi ríkisábyrgð fyrst og fremst. Ef Landsbankaeignirnar væru svona miklar, 75 eða 95%, af hverju mundu ekki Bretar og Hollendingar láta sér það duga að taka þær upp í Icesave-skuldina og láta málið kyrrt liggja? Nei, þá vantar ríkisábyrgð. Þá vantar veð í okkur Íslendingum, í auðlindum okkar og landinu sjálfu. Það er viðbjóðslegt að horfa upp á þetta.