138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:04]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg kórrétt það sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir segir. Við Íslendingar erum svo barnalegir og einlægir að við leyfum okkur að líta á þjóðir eins og þjóðir. Við leyfum okkur að líta á Breta sem Breta og Hollendinga sem Hollendinga o.s.frv. En það er sýnt að þessar þjóðir líta ekki á okkur Íslendinga sem þjóð. Þær líta á Ísland sem veisluborð að auðlindum (VigH: Þetta er rétt.) og auðvitað vilja þeir ásælast það. Við skulum horfa á barnaskap og einfeldni okkar Íslendinga þegar við trúum öllu sem erlent er. Það hefur oft komið okkur í koll að treysta ekki á eigið skinn og eigin skynsemi. Með ólögum eyða, það er alveg ljóst. Í lok þjóðfundarins 1851 voru lokaorðin, með leyfi forseta, Jóns Sigurðssonar:

„Og ég mótmæli í nafni konungs og þjóðarinnar þessari aðferð, og ég áskil þinginu rétt til þess að klaga til konungs vors yfir lögleysu þeirri sem hér er höfð í frammi.“

Við stöndum í nákvæmlega sömu sporum vegna þess að ef þessi skelfilegi samningur verður samþykktur, munum við eyða ómældum tíma næstu missirin og næstu árin í að reyna ógilda þennan samning af því hann er ekki brúklegur og kemur í veg fyrir að Íslendingar hafi sömu möguleika og aðrar þjóðir. (Forseti hringir.) Þess vegna þarf að eyða honum eins og ólögum er eytt.