138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:12]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Nú er að ljúka umræðum um þetta mál sem verið hefur stanslaust til umræðu síðustu sjö mánuðina eða svo. Lengra er nú víst hægt að rekja málið þrátt fyrir það, það hefur verið hér meira og minna undir- og yfirliggjandi í stjórnmálaumræðu og þjóðmálaumræðu í ríflega ár, eða allt frá hruni Landsbanka Íslands.

Alþingi hafa borist mörg þúsund blaðsíður af gögnum um þetta mál á þeim sjö mánuðum sem það hefur haft það til meðferðar frá því að samningar voru undirritaðir í byrjun júní. Fastanefndir Alþingis hafa fengið mörg hundruð gesta í heimsókn til sín til þess að gefa álit sitt og umsagnir á samningunum og til að leggja góð ráð í púkkið.

Því hefur verið haldið fram oft sinnis af stjórnarandstæðingum í ræðustól að hér sé verið að skuldbinda komandi kynslóðir Íslendinga. Þeir sem hafa verið sparastir á slíkar yfirlýsingar hafa talað um börn sín og barnabörn, fyrir utan sjálfa sig að sjálfsögðu. Við erum þá hugsanlega að tala um í það minnsta 130–150 ár, kannski 160 ár sem verið er að skuldbinda Íslendinga samkvæmt þeim yfirlýsingum. Það er ekkert sem bendir til þess. Engin gögn sem lögð hafa verið fram í málinu gefa vísbendingar um það. Að hér liggi fyrir gögn sem gefa vísbendingar um það er ekki sannleikanum samkvæmt.

Svartasta spá sem lögð hefur verið fram hvað þetta varðar kemur frá fyrirtæki sem heitir IFS Greining. Hún spáir því að við verstu hugsanlegu skilyrði (Gripið fram í.) muni lánið verða greitt upp eftir 30–35 ár, við verstu hugsanlegu skilyrði. Þá kættust nú stjórnarandstæðingar þegar þeir fengu að berja það augum, að það gæti nú orðið bara andskoti slæmt miðað við þessa vondu spá IFS Greiningar. Seðlabankinn, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, fjármálaráðuneytið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa öll komist að annarri niðurstöðu, Seðlabankinn hefur í sinni verstu spá sagt að það muni kannski taka okkur tvö ár í viðbót að greiða en ætlunin hefði verið.

Virðulegur forseti. Það er búið að segja nánast allt um þetta mál sem hægt er að segja. Ég ætla ekki að teygja lopann lengur, en síðasti sólarhringur og síðustu dagar í umræðunni hér á Alþingi um þetta mál hafa verið stjórnarandstæðingum til skammar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Mér er til efs að stjórnarandstaða á Íslandi hafi nokkru sinni náð öðrum eins lægðum í framkomu sinni og framgöngu á Íslandi eins og stjórnarandstaðan hefur náð í þessu máli hér.

Því hefur verið haldið fram að mjög ítarleg og góð gögn hafi komið fram af hálfu lögfræðistofu frá Bretlandi um að hér mætti hefja mál til að byggja málsókn á gagnvart kyrrsetningu eigna Landsbankans í Bretlandi. Það hefur legið fyrir í marga mánuði, í á annað ár í gögnum þingmanna, í hverju skjalinu af öðru þar sem kemur fram lögfræðiálit frá breskum lögmönnum frá síðasta ári, frá tíð þarsíðustu ríkisstjórnar, frá íslenskum lögmönnum, frá ríkislögmanni og fleirum, að við könnun á málinu er varað við slíkri málsókn vegna þess að það þykir ekki bara ólíklegt heldur nánast óhugsandi að hægt sé að vinna slíkt mál, hvað þá að fá einhverjar bætur. Það var ákvörðun sem tekin var á síðasta ári samkvæmt þeim gögnum sem til eru í Alþingistíðindum, í gögnum þingmanna, samkvæmt þeim sem sátu í fjárlaganefnd og öðrum sem höfðu aðgang að slíkum gögnum, að fara ekki mál vegna hryðjuverkalaganna. Hvað er þá nýtt við það þótt bresk lögmannsstofa sendi inn tilkynningu um það á næstsíðasta degi umræðunnar að hugsanlega hefði mátt fara í slíkt mál? Það er alls ekkert nýtt. Engar nýjar upplýsingar hafa komið fram um þau mál, ekki eitt einasta snitti. En lægst lagðist þó stjórnarandstaðan í dag þegar hún fól breskri lögmannsstofu umboð sitt hér á Alþingi þar sem hún krafðist þess að þingfundum á Alþingi Íslendinga yrði frestað, að hætt yrði að ræða mál hér á Alþingi Íslendinga á meðan bresk lögmannsstofa sendi hingað tölvupóst um eitthvað sem þau hefðu ekki hugmynd um hvað væri. Lægra held ég að engin stjórnarandstaða hafi aldrei lagst og á nánast bara eftir að kasta rekunum á hana miðað við það sem gekk hér á í dag. Megi þau hafa skömm fyrir það.