138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:20]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja að þetta svar sýnir það sem mig grunaði, hv. þingmaður, varaformaður fjárlaganefndar, virðist hreinlega ekki vita hvað viðskiptajöfnuður er, hvað útflutningsjöfnuður er, eða hvar við ætlum að fá peninga til þess að borga þessa skuld vegna þess að hann kom sér hjá því að svara hvernig stendur á því að þessar virtu stofnanir sem hann vitnar í geta ekki einu sinni spáð rétt varðandi árið í ár. Veðurfræðingar eru nú þokkalega góðir í að spá t.d. um veðrið í dag, á morgun og næsta dag, en þeir eiga svolítið erfiðara með að spá nákvæmlega til um veðrið viku fram í tímann, hvað þá tvær vikur. En hv. þingmaður treystir á spár þessara stofnana 15 ár fram í tímann þegar þær geta ekki einu sinni spáð rétt um árið í ár. Hvar á að fá þessa 40 eða 50 milljarða sem vantar nú upp á? Ég get vitnað í nákvæmlega sömu vitleysuna, spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að vísu aðeins skárri. (Forseti hringir.) Þegar níu mánuðir voru eftir vanmátu þeir vöruskiptajöfnuð um 40 milljarða og (Forseti hringir.) þjónustujöfnuðinn um 18 milljarða. Það væri ágætt ef hv. þingmaður gæti bent mér á hvar á að fá (Forseti hringir.) peninga til þess að borga þessa skuld.

(Forseti (SVÓ): Forseti áminnir hv. þingmann um að halda tímatakmörk í andsvörum.)