138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:21]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í svari Seðlabankans við erindi fjárlaganefndar hér fyrir jólin er Seðlabankinn beðinn um að gefa álit sitt á nokkrum atriðum, þar á meðal að leggja mat á efnahagslega áhættu af skilyrðislausri greiðslu vöxtum á Icesave-lánunum og leggja mat á þær breytingar sem gerðar hafa verið á efnahagslegum fyrirvörunum. Þar vísar Seðlabankinn í nýleg gögn sem eru frá því um miðjan nóvember. Þar segir Seðlabankinn, með leyfi forseta:

„Í útreikningum sést að þegar, miðað við 50% endurheimtur, mjög slæmar forsendur, sýnir þjóðhagsspá Seðlabanka Íslands að lánin yrðu ekki að fullu greidd árið 2024 eins og gert var ráð fyrir í upphaflegum samningum, heldur árið 2026.“

Þetta er samdóma álit allra þeirra sem gefið hafa álit sitt í fjárlaganefnd, fyrir utan IFS Greiningu.

Ég ætla ekki að leggja spá mína um framtíðina að jöfnu við spádómsgáfu hv. þm. (Gripið fram í.) Eyglóar Harðardóttur. (Gripið fram í.) Ég byggi afstöðu mína á þeim gögnum (Forseti hringir.) sem lögð hafa verið fyrir fram fyrir fjárlaganefnd en ekki á spádómsgáfu (Forseti hringir.) hv. þingmanna (Gripið fram í.) Framsóknar.