138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:28]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð alltaf hálfsorgmædd þegar hv. þm. Björn Valur Gíslason kemur hér í ræðustól vegna þess að hann hefur valið sér það sorglega hlutverk að vera í hlutverki skítadreifarans hjá þessum ríkisstjórnarflokkum sem hér ráða og ríkja. Alltaf þegar hv. þingmaður kemur í ræðustólinn er byrjað að ata auri og haldið fram ómálefnalegum athugasemdum um að fólk hér inni hafi ekki kynnt sér málið. Það mætti halda að maðurinn hefði verið úti á sjó frá því í sumar.

Hv. þingmaður sagði að þetta væri sorglegasta stjórnarandstaða í manna minnum og spurði hvort sagan næði ekki lengra aftur en til sl. vordaga. Þá spyr ég: Nær minni hv. þingmanns ekki lengra en til sl. vordaga? Ég man nefnilega eftir stjórnarandstæðingnum Steingrími J. Sigfússyni sem gekk upp að þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, og ýtti við honum hér í þingsalnum. Var það ekki sorgleg stund? Mér þótti það vera mjög sorgleg stund þar sem ég horfði á fréttirnar heima hjá mér. Jafnframt þótti mér það mjög sorgleg stjórnarandstaða (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) þegar hv. þáverandi stjórnarandstöðuþingmaður, Steingrímur J. Sigfússon, notaði, með leyfi forseta, orðin „gunga og drusla“ úr þessum ræðustól.