138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér voru kosningar í vor og þá steig flokkurinn Vinstri hreyfingin – grænt framboð fram og sagði: „Nú má ég, hér kem ég og nú ætla ég að stjórna.“ Frá þeim tíma hefur sá flokkur setið í ríkisstjórn og ber alla ábyrgð á því hvernig þetta mál er til komið til þessa þings og þessum ömurlegu samningum, sem reyndar voru kallaðir „glæsileg niðurstaða“ af hálfu formanns Vinstri grænna, hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar. Hv. þingmaður getur bundið fyrir augun á sjálfum sér eins og hann vill og haldið því fram í þessum ræðustól að hann beri ekki nokkra einustu ábyrgð á þessu, hann sé bara að samþykkja eitthvað sem Sjálfstæðisflokkurinn ber ábyrgð á. Það er rangt. Það stenst enga skoðun og sagan mun dæma þessi orð. Hún mun dæma framkomu hv. þingmanns í öllu þessu máli, allar hans skoðanir og allan hans aurburð í þessu máli. Þetta er ekki til fyrirmyndar, frú forseti. Menn verða þó alla vega að geta kannast við sína eigin ábyrgð þegar þeir eru orðnir það háttsettir að vera orðnir varaformaður fjárlaganefndar og standa undir því í þessu stóra máli, menn sem ætla að keyra það hér í gegn og finnst það allt í lagi þótt hv. þingmenn (Forseti hringir.) fái ekki ráðrúm til þess að kynna sér gögn málsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)