138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:35]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mun þá væntanlega svara hv. þingmanni í ræðu hennar hér á eftir þar sem hún hefur tilkynnt með talsvert góðum fyrirvara að hún muni beina til mín spurningum um þau atriði sem hún nefndi hér áðan. Það verður bara ánægjulegt að fá að svara því, það veitir svo sannarlega ekkert af því (Gripið fram í.) að upplýsa hv. þingmenn um það.

Hér kemur hv. þingmaður og talar um þverpólitíska sátt sem hafi verið hafnað. Nú í sumar voru samþykkt lög hér á Alþingi 28. ágúst með atkvæðum stjórnarliða. Ekki einn einasti stjórnarandstæðingur studdi það mál (Gripið fram í.) í lokaafgreiðslu málsins, ekki einn einasti. Og svo er kallað eftir sátt og samlyndi og að menn standi saman. Hvað sagði hv. þingmaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins um miðjan október þegar það mál kom upp sem við erum að afgreiða hér núna? Hver var tónninn þá? Það átti sko alls ekki að spila með þá (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) og ekki starfa með stjórnarliðum að nokkru leyti, virðulegi forseti.