138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Maður skilur það núna af hverju þau eru að klúðra þessu öllu því að það mál sem við ræðum hér í dag og greiðum atkvæði um á eftir er tómt klúður. Það er gjörbreytt frá því í sumar. Það er út af verklagi ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar sem íslenskum hagsmunum er ógnað nú. Af hverju fórum við ekki sameinuð út eftir sumarþingið? Það er ósvífni að segja að þingmenn í stjórnarandstöðunni hafi ekki komið að málinu þegar allir hafa talað um að hér hafi náðst sögulegar sættir, söguleg vinnubrögð inni í þingi.

Ég spyr hv. þingmann: Hvenær beitti samninganefnd Íslands því vopni sínu í samningaviðræðum við Breta og Hollendinga að tala um Heritable bankann og þá hagsmuni sem Bretar hefðu af því að við mundum ekki fara í mál við breska fjármálaeftirlitið? Hvenær ræddu samningamenn Íslands þetta? Hv. þingmaður á að vita það fyrst hann fylgist svona vel með. Hvenær beittu þeir því vopni að segja að við mundum hugsanlega (Forseti hringir.) fara í mál vegna Heritable bankans og yfirtöku á honum, sem allir lögmenn hafa bent á að sé (Forseti hringir.) sterkasta vopn Íslands í þessum samningaviðræðum? Hvenær var það gert? (Forseti hringir.) Eða var það kannski aldrei gert? Var litið fram hjá því? (Forseti hringir.)