138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:25]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég hef kosið að setja mig alltaf neðar og neðar á mælendaskrána vegna þess að ég hafði beðið hæstv. utanríkisráðherra um að koma og vera viðstaddur hér því að ég hef nokkrar spurningar til hans. Ég vil þakka fyrir að hæstv. utanríkisráðherra er mættur í salinn en ég tel mig knúna til þess að spyrja út í atriði varðandi þá yfirlýsingu sem kom klukkan fjögur í dag frá lögmannsstofunni Mishcon de Reya. Það er alveg ljóst að þessari lögmannsstofu er nóg boðið og hún gefur út yfirlýsingu þrátt fyrir að hæstv. forseti Alþingis gripi inn í atburðarásina og stoppaði af allar tölvupóstssendingar frá viðkomandi lögmannsskrifstofu. Þá kýs þessi skrifstofa samt að senda frá sér talsvert umfangsmikla yfirlýsingu þar sem hún hefur m.a. verulegar athugasemdir við yfirlýsingar Svavars Gestssonar sendiherra frá því í morgun. Hún hrekur eiginlega þá yfirlýsingu og segist standa við það sem kom fram í bréfi þeirra frá því í gær um atburðarásina sem á að hafa átt sér stað í mars í Bretlandi þegar ákveðin gögn voru tekin út úr kynningu sem hæstv. utanríkisráðherra fékk.

En mig langar að spyrja út í eftirfarandi atriði:

Það kom fram í umræðum í gær að hæstv. utanríkisráðherra sagði að hann hefði ekki haft þessi gögn undir höndum fyrr en í gær. (Gripið fram í.) Hann segist hafa hlaupið í gegnum þetta, bæði bréfið frá Mishcon de Reya síðan í gær og sömuleiðis þau kynningargögn sem segir í bréfinu að hann hafi fengið, en svo virðist þó ekki hafa verið. Síðan er í síðara andsvari aðallega fjallað um 4. kafla í þessum gögnum og varðar málarekstur fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu o.s.frv. Fram kemur í máli hæstv. utanríkisráðherra að hann hafi ekki fengið kynningu á þessu. Samt segir í yfirlýsingu frá Mishcon de Reya að hæstv. utanríkisráðherra hafi fengið kynningu og er tilgreint hvenær hún var. Það var á fundi í Rib Room á Jumeirah Carlton Tower hóteli 31. mars.

Mig langar þess vegna að spyrja, bara til þess að fá þetta á hreint: Fékk hæstv. ráðherra þessa kynningu eða ekki, eða var hæstv. ráðherra að meina eitthvað allt annað í svörunum hér í gær? Var hann þá að meina þennan 4. kafla sem hann hafði ekki fengið að sjá, af því sá kafli hafði verið tekinn út? Ég vona að hæstv. ráðherra skilji hvað ég er að fara. Mig langar að fá þetta á hreint.

Svo vil ég líka spyrja hæstv. ráðherra, af því að ég á svo erfitt með að átta mig á þeirri yfirlýsingu frá Mishcon de Reya, hvað nákvæmlega er verið að fara í henni. Í 5. töluliðnum í þessari yfirlýsingu segir að sendiherra okkar Svavar Gestsson hafi haft eina eintakið af þessari kynningu, þ.e. fyrri kynningunni frá 26. mars, sem hæstv. utanríkisráðherra fékk ekki, af því að það var búið að taka út þarna gögn, þetta gagn. Þessi kynning var „securely in his safe“, eins og segir hérna, þ.e. hún var örugg í peningaskápnum heima hjá honum, eitthvað svoleiðis. Hún var á þessum stað. Síðan segir hins vegar að tveir embættismenn hafi verið með þessa kynningu eða tekið afrit af henni, þ.e. Huginn Þorsteinsson og Áslaug Árnadóttir. Þetta eru þeir embættismenn sem eru búnir að koma mikið við sögu í þessu máli.

Af hverju kemur lögmannsskrifstofan þessu á framfæri? Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvernig getur staðið á því. Er það til þess að sýna fram á að það sé mjög furðulegt, svo ekki sé nú meira sagt, að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki séð þessi gögn? Þau eru í þessum peningaskáp heima hjá sendiherranum okkar, Svavari Gestssyni, og svo hjá tveimur embættismönnum hér á Íslandi.

Síðan kemur fram í 7. lið að lögmannsskrifstofan býðst til þess að fá eiðsvarna yfirlýsingu frá lögmönnum sínum sem voru á fundinum 26. mars þegar þessi fyrri kynning fór fram. Af hverju er verið að koma því á framfæri?

Ég verð, virðulegur forseti, að segja að það er svo óþægilegt að standa hér og spyrja svona spurninga, grundvallarspurninga að mínu mati, um hvað hefur átt sér stað, í minni síðustu ræðu, í síðustu ræðunni í þessu máli. En þetta er ekki boðlegt.

Ég vil samt þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að koma hérna og sýna þá viðleitni að reyna að upplýsa okkur á þessum síðustu sekúndum sem við höfum. En auðvitað eru þetta algjörlega fráleit vinnubrögð og þetta mál er ekki tækt til afgreiðslu eins og staðið er að því núna, alla vega ekki fyrir okkur í stjórnarandstöðunni. Það er ekki tækt, virðulegur forseti.