138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:39]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Landsbankinn gamli, hinn einkavæddi Landsbanki, var íslenskur banki. Hann starfaði á íslenskri kennitölu, var að uppistöðu til í eigu Íslendinga og var undir íslenskum lögum og reglum. Hann heyrði undir íslenskt eftirlit, íslenskt Fjármálaeftirlit og Seðlabanka og hann var á ábyrgð íslenska innlánstryggingarkerfisins hvað varðaði innlán í öllum útibúum bankans.

Hann hafði starfsemi víða um byggðir Íslands, útibú þar sem fólk lagði inn peninga en því miður stofnaði hann einnig, með fullu leyfi íslenskra stjórnvalda, útibú í Bretlandi og síðar í Hollandi. Inn í þau útibú safnaði hann óhemjufjárhæðum með því að yfirbjóða aðra banka með háum vöxtum og auglýsa að innstæðurnar væru tryggar vegna þess að íslenska innlánstryggingarkerfið stæði á bak við starfsemi bankans. Um 350.000 aðilar, fleiri en við Íslendingar erum, lögðu sparifé sitt inn á þessa reikninga í góðri trú, einstaklingar, sveitarfélög, líknarfélög, lífeyrissjóðir, eftirlaunasjóðir o.s.frv.

Þegar þessi banki hrundi, varð gjaldþrota og gat ekki greitt fólkinu út þessar innstæður gat aldrei farið öðruvísi en svo, hvað sem lagalegum álitamálum líður, en að niðurstaðan yrði skelfilegt tjón, ógæfa og dýr harmsaga fyrir Ísland. Og svo varð. Sem betur fer áttu hinir föllnu bankar fyrir öllum innstæðum, þar reyndi ekki á innlánstryggingarsjóðinn þannig að í þeim skilningi varð ekki það algera kerfishrun hvað innlán varðar sem oft er látið í veðri vaka í þessu máli. Það voru aðeins innlán Landsbankans í Bretlandi og Hollandi sem íslenski innstæðutryggingarsjóðurinn þurfti að takast á við en þau voru skelfilega stór og mikil.

Veruleikinn er sá að Ísland einangraðist á örskömmum tíma með þá afstöðu sína að óvissa ríkti um hvort ríkinu bæri við þessar aðstæður að standa á bak við innlánstryggingarsjóðinn og tryggja honum fullnægjandi fé. Strax í október fóru íslensk stjórnvöld undir miklum þrýstingi að lýsa því yfir að það yrði gert, að íslenska innlánstryggingarsjóðnum yrði tryggt nægjanlegt fé til að fólk brynni ekki inni með innstæður sínar.

Ég hygg að þáverandi hæstv. forsætisráðherra hafi á hreinskilinn og mjög réttan hátt lýst því hvernig mál stóðu í nóvembermánuði þegar íslensk stjórnvöld höfðu í áföngum hrakist undan og fallist á að greiða lágmarksinnstæðurnar að fullu, 20.887 evrur. 13. nóvember 2008 lýsir Geir H. Haarde því hvernig komið sé, hver staðan sé orðin og talar um að meira að segja Norðurlöndin leggist nú á sveif með Evrópusambandsríkjunum sem segi að leysa verði Icesave-deiluna áður en Íslandi verði lofað nokkrum stuðningi, áður en við fáum afgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum o.s.frv.

Fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, sagði 13. nóvember í viðtali við kvöldfréttir sjónvarpsins, með leyfi forseta:

„Það er alveg ljóst að það er verið að beita okkur miklum þrýstingi og það er enginn góður kostur til dæmis varðandi þessa Icesave-reikninga, það er enginn góður kostur í þessari stöðu þannig að við þurfum að velja leið sem að lágmarkar tjónið fyrir okkur og gerir okkur kleift að ná þeim markmiðum sem við þurfum að ná svona í öðrum málum.“

Þannig var staðan og er enn. Við verðum að velja þá leið sem lágmarkar skaðann sem þetta mál, eins og mörg önnur sem tengjast hinu sársaukafulla efnahagshruni, hefur valdið okkur. Sú leið sem hér hefur verið farin gengur út á það að hámarka eftir föngum eignir gamla bankans til að greiða inn á tjónið, að gefa íslenska hagkerfinu langan tíma til að jafna sig eftir efnahagsáföllin, ná styrk sínum á nýjan leik og verja það fyrir greiðslum á meðan.

Þetta hefur tekist í samningunum, þeir eru til muna hagstæðari en upprunalegar hugmyndir um að leysa málið frá haustinu og fyrri hluta vetrar 2008. Á þeim grundvelli til lausnar sem nú liggur fyrir hafa fyrirvarar Alþingis frá því í sumar allir verið færðir inn í viðaukasamningana, settir í lögin eða að þeirra sér stað í sameiginlegum yfirlýsingum fjármálaráðherra landanna þriggja. Náttúruauðlindirnar eru tryggðar, Brussel-viðmiðin svokölluðu eru tekin inn, áskilnaði um að Ísland geti leitað réttar síns varðandi lagaóvissu um greiðsluskylduna er til haga haldið í frumvarpinu og öðrum þeim atriðum sem mest var rætt um í þessum efnum. Efnahagslegu fyrirvararnir eru inni hvað greiðslu varðar, óbreyttir að öðru leyti en því að að lágmarki skulu alltaf greiddir vextir. Greiðslurnar eru tengdar við hagvöxt og þannig er landinu búið aukið öryggi ef við lendum í erfiðleikum á komandi árum.

Margt stórt hefur verið sagt gegn þessum samningum um þetta mál og hversu vont það sé. Það hefur minna farið fyrir öðrum uppbyggilegum hugmyndum um hvað menn ætla að gera í staðinn ef þeir ætla að hafna þessu. (Gripið fram í.) Við heyrðum gott dæmi um það áðan þegar formaður Sjálfstæðisflokksins talaði í 15 mínútur sléttar um það hvað málið væri vont, ríkisstjórnin ömurleg, hve illa hefði verið að þessu staðið, hvað þetta væri allt saman slæmt. Ekki ein sekúnda í það hvað annað ætti þá að gera. Þetta var formaður Sjálfstæðisflokksins (Gripið fram í.) með ekki eitt einasta iðrunarorð fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, engin afsökunarbeiðni kom frá formanni flokksins sem ber pólitískt meiri ábyrgð á þessum ósköpum en nokkur annar íslenskur stjórnmálaflokkur. Það er óhrekjanlegt að Sjálfstæðisflokkurinn er í miðpunkti þeirra pólitísku ákvarðana og aðgerða allt frá innleiðingu nýfrjálshyggjunnar, allt frá einkavæðingu bankanna og því sem á eftir fylgdi og leiddi til þessa hruns að lokum.

Það hefði verið stórmannlegt ef formaður Sjálfstæðisflokksins hefði komið hér seint og um síðir loksins og beðið þjóðina afsökunar fyrir hönd síns flokks. (Gripið fram í.) Það hefði verið rismeira, það hefði verið til bóta ef hann hefði verið jafnraunsær og -heiðarlegur og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins sem talaði með raunsönnum hætti um þá erfiðu kosti sem þáverandi ríkisstjórn taldi sig verða að sæta. Ekkert slíkt kom fram hjá núverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, því miður, forherðing ein, gagnrýni á allt og alla sem hefðu átt að standa sig einhvern veginn allt öðruvísi og miklu betur. Það er hægara um að tala en í að komast, Bjarni Benediktsson. (Gripið fram í.) Þetta vissu þínir menn í fyrrahaust og fyrravetur, þetta vissir þú sjálfur, Bjarni Benediktsson, hv. þingmaður, (Forseti hringir.) þegar þú varst að rökstyðja það hér í fyrra að dómstólaleiðin væri ófær og það væri engin —

(Forseti (RR): Hæstv. fjármálaráðherra er vinsamlega beðinn að beina máli sínu til forseta.)

Ég leiðrétti mál mitt, frú forseti, og sagði hv. þingmaður, ég er að tala við virðulegan forseta.

Svona var þetta og svona er þetta vaxið. Ég tel að öllum helstu ábendingum og gagnrýnisatriðum stjórnarandstöðunnar hafi verið svarað rækilega og málefnalega. Það hefur hins vegar enginn haldið því fram og mun aldrei gera að þetta sé annað en vont og erfitt mál sem er okkur öllum sársaukafullt að þurfa að takast á við. En það er líka ljóst að það verður að gera það, það er líka ljóst að það yfirgefur okkur ekki, það gleymist ekki, það gufar ekki upp. Það er þarna og mun verða þarna og mun verða hindrun í vegi allrar okkar þróunar og framvindu takist ekki að koma því einhvern veginn út úr heiminum.

Stjórnvöld hafa verið sökuð um leynd og pukur í þessu máli. Ekkert er fjær sanni. (Gripið fram í.) Ég hef setið lengur í utanríkismálanefnd Alþingis en nokkur annar maður hér sem enn er á þingi og ég veit fyrir víst að aldrei nokkurn tímann í nokkru máli hefur trúnaði verið létt af skjölum og önnur eins ókjör gagna reidd fram og í þessu tilviki. Aldrei hefur það verið gert.

Nú er það svo, virðulegi þingheimur, að það dregur að lokum umræðu um þetta Icesave-mál. Eins og við höfum lært af reynslunni og vitrir menn hafa kennt okkur er alltaf óvissa um framtíðina. Það á að sjálfsögðu við um Icesave, það á að sjálfsögðu við um Ísland, það á við um það hvernig okkur reiðir af í gegnum öll þau áföll sem hér hafa orðið. Ég tel að við séum á góðri leið. Og hvaða veganesti ætlum við að hafa með okkur í glímunni framvegis við viðfangsefnin? Er það ekki trú á framtíðina, er það ekki það að við ætlum Íslandi í gegnum þessa erfiðleika? Eða hvað? Með hvaða hugarfari viljum við takast á við hinn dagsdaglega veruleika?

Það er ljóst að alþjóðasamfélagið lítur svo á að Ísland eigi að standa við lágmarksinnstæðutrygginguna. (Gripið fram í: Nei.) Að hverfa frá því núna, sem hefur verið margheitið, -skrifað, -lofað og -yfirlýst yrði talið íslenskum stjórnvöldum til vansa, það mundi stórskaða trúverðugleika landsins og má það þó ekki við því. Það mundi rýja íslensk stjórnvöld trausti og það mundi stöðva framgang allra okkar mála.

Mikill tími hefur farið í umræðu um þetta mál. Það er stórt, það er erfitt, það hefur enginn haft ánægju af því að glíma við það. Það er athyglisverð staðreynd og kemur e.t.v. einhverjum áhorfendum á óvart þegar það er upplýst að samt er áætlað að í lok næsta árs verði Icesave-skuldbindingin aðeins rétt rúmlega 10% af heildarskuldum og -skuldbindingum ríkisins, (Gripið fram í.) 10%-11% stendur í nýjasta matinu þar um. Það eru önnur og stærri og nærtækari vandamál sem við höfum við að glíma, sem menn reyna hins vegar að þegja um, af því að þar geta þeir síður svarið faðernið af sér þar sem er gjaldþrot Seðlabankans og fleiri slíkir hlutir. Það er nú þannig.

Það er auðvitað hægt að kenna sendiboðanum um og það er hægt að reyna að kenna þeim um sem taka við vondu búi og eru að reyna að rífa það upp, eru að reyta arfann úr túninu og sá á nýjan leik. En það er ekki stórmannlegt, það vita allir hvernig þetta mál er vaxið.

Það sem við Íslendingar þurfum að gera er að koma þessum hlutum sem flestum frá og snúa okkur að framtíðinni, að uppbyggingunni. Þar hefur okkur sem betur fer miðað vel í gegnum þetta ár. Staðan er víða erfið en því miður fer hún versnandi í mörgum löndum sem eru í hliðstæðum erfiðleikum og við. Hér fer hún batnandi og er betri en við héldum að hún yrði fyrir hálfu ári, fyrir níu mánuðum, fyrir ári síðan. Það er minna atvinnuleysi, samdráttur landsframleiðslu var minni og nú fer verðbólga lækkandi, vextir lækkandi og kannski var hvað mest sláandi fyrirsögn á mbl.is, held ég að það hafi verið, hérna upp úr jólum: Kaupmenn hæstánægðir með jólaverslunina. Ástandið er þó ekki verra en það á Íslandi þar sem ýmsir spáðu, þeir hinir sömu og spá nú öllu svörtu í sambandi við þetta mál, að hér yrði allt hrunið og í kaldakoli. Það hjálpar okkur ekki að takast á við hlutina með því hugarfari.

Það að ljúka Icesave-málinu er bara einn hluti af því að koma Íslandi áfram í gegnum erfiðleikana og út úr þeim. Öllum hugsandi mönnum má vera ljóst að það verður að takast á við þetta mál og leiða það til lykta. Þannig er það.

Ég vil að lokum, frú forseti, þakka öllum þeim sem hafa lagt fram krafta sína í þágu þess að Ísland glímdi við þetta mál allt frá haustdögum 2008 og til dagsins í dag. Ég þakka sérstaklega þeim embættismönnum, samninganefndarmönnum, lögfræðingum og þeim öðrum sem hafa aðstoðað íslensk stjórnvöld á þessum tíma og hafa gert sitt besta, um það beðnir eða í þágu þeirra sem þeir starfa fyrir. Ég tek það mjög nærri mér að ýmsir slíkir hafa mátt sæta mjög óvæginni gagnrýni og að að þeim hefur verið veist án þess að þeir geti svarað fyrir sig eða borið hönd fyrir höfuð sér. Ég tek það mjög nærri mér, en ég segi: Það er miklu meir til vansa þeim sem þannig standa að málum en þeim sem fyrir verða. Þeirra er skömmin sem veitast að fólki sem ekkert hefur gert annað en reynt að vinna þá vinnu sem það hefur verið beðið um.

Ísland mun sigrast á erfiðleikum sínum, það er bjargföst trú mín og sannfæring og að í hönd fari ár þar sem batinn hefst. Ef ég tryði þessu ekki, frú forseti, stæði ég ekki hér.