138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hvað gerist ef við samþykkjum þessa frávísunartillögu? Þá munu taka gildi lögin frá því í sumar og ég geri ráð fyrir því að Bretar og Hollendingar muni sjá sitt óvænna og samþykkja fyrirvarana vegna þess að annars þurfa þeir að fara að semja eftir að Íslendingar eru búnir að fá heilmikið af nýjum upplýsingum eða þá að þeir fara í málaferli. Og hvað gerist þá? Þá eru 90% líkur á því að Íslendingar þurfi ekki að borga neitt [Hlátur í þingsal.] vegna þess að við eigum ekki að borga neitt. Það eru 10% líkur á því að við þurfum að borga, en þá borgum við í íslenskum krónum. Það er allt annar handleggur að skulda mikla peninga í íslenskum krónum með gjaldeyrishöft o.s.frv. og svo mundi ríkisstjórnin væntanlega leggja aukna fjármagnstekjuskatta á Breta og Hollendinga þannig að það er enginn þrýstingur lengur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, það vill enginn hafa kúgað okkur, enginn kannast við það lengur, þannig að við erum í þeirri stöðu að ekkert þrýstir á þetta. Ég segi já.