138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:49]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Þegar Icesave-samningarnir komu til umræðu á Alþingi fyrr í sumar voru settir fyrirvarar við ríkisábyrgðina og tók sá sem hér stendur virkan þátt í þeirri vinnu. Hún skilaði marktækum árangri sem ekki má vanmeta. Samningarnir tóku síðan breytingum eftir áframhaldandi viðræður við Breta og Hollendinga. Í ljósi aðdraganda Icesave-samninganna og þeirrar stöðu sem málið er í nú er það mín skoðun að óhjákvæmilegt sé að leiða málið til lykta og koma því á næsta stig.

Ég tel hins vegar bæði sjálfsagt og eðlilegt að þjóðin fái tækifæri til að kjósa um Icesave og því styð ég þessa tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Nái hún ekki fram að ganga mun ég að lokinni atkvæðagreiðslu hér í kvöld ganga inn í hliðarherbergi þingsins, skrá nafn mitt á vefsíðu indefence.is og með því skora á forseta Íslands að senda málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Og ég hvet landsmenn alla til að gera slíkt hið sama. [Lófatak á þingpöllum.]