138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:23]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það sem meiri hlutinn er að gera með þeim breytingartillögum sem hafa verið samþykktar á Alþingi er að taka hinn svokallaða almenna lagalega fyrirvara úr sambandi. Það þýðir með öðrum orðum að jafnvel þó að einhver óháður úrskurðaraðili úti í hinum stóra heimi kæmist að raun um að við ættum ekki borga, það er ekki ríkisábyrgð á bak við, ættum við að njóta þess.

Við leggjum til að við fáum notið þess ef eitthvað gerist. Ríkisstjórnin tók það úr sambandi. Lögmennirnir Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson hafa komið fyrir fjárlaganefnd og sagt að því miður sé hinn lagalegi fyrirvari sem hér um ræðir úr sögunni. Ég segi já, frú forseti, og mér þykir miður að sjá að þessu verði hafnað af meiri hlutanum.