138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:38]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Nú þegar komið er að því að afgreiða þetta mál loksins og endanlega frá Alþingi er engu við það að bæta. Það hefur allt verið sagt sem segja þarf til að þingmenn geti tekið afstöðu í málinu. Ég ætla ekki að bæta neinu hér við. Ég vil hins vegar nota þetta tækifæri þegar komið er að lokum þessa máls og þakka öllum þeim fjölmörgu sem komu að málinu, liðsinntu þingmönnum og þingnefndum við að setja málið í þann búning sem það þó er og gera það að því sem við stöndum frammi fyrir að greiða atkvæði um í dag. Þeim hundruðum aðila sem lögðu álit sitt og umsagnir inn í þingnefndir þingsins ber að þakka. Ég þakka samninganefndinni sem náði að knýja fram þessa góðu samninga á ömurlegu máli [Kliður í þingsal.] sem ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar fékk í arfleifð frá fyrri ríkisstjórnum. Þetta voru þeir samningar sem best var hægt að ná fyrir Ísland. Ég segi að sjálfsögðu já við þeim.