138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:40]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði í ræðu sinni fyrr í kvöld að lítið hefði verið talað um krónur og aura, hvernig við ætluðum að standa skil á öllum þessum skuldum okkar. Ég byggi afstöðu mína einmitt á þessu og hefði gjarnan viljað að hæstv. forsætisráðherra hefði hlustað á ræðu mína.

Ég get ekki séð hvernig við eigum að standa undir þeim skuldbindingum sem við höfum þegar tekið á okkur þannig að ég skil ekki hvernig í ósköpunum við eigum að geta bætt þessu við. Mjög fáir þingmenn hafa haft mikinn áhuga á að ræða um viðskiptajöfnuð og mjög fáir þingmenn hafa haft áhuga á því að ræða það hvernig í ósköpunum við eigum að geta staðið undir þessari skuldbindingu. Það var ástæðan fyrir því að ég kom að vinnu við að búa til efnahagslegu fyrirvarana í sumar, ég taldi að við þyrftum að hafa þennan varnagla ef bjartsýnisspárnar hjá Seðlabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum mundu ekki ganga eftir.

Það eru þegar komnar fram niðurstöður með árið 2009 sem sýna að þær spár ganga ekki eftir. Hvernig í ósköpunum getum við áætlað fram um 15 ár? Því segi ég nei.