138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:42]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum með lög sem við samþykktum hér í sumar. Þegar við samþykktum þau sögðu hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra að þetta væri allt innan samkomulagsins. Það væri lítið mál að segja viðsemjendum okkar að þetta væri svona og þessu yrði ekki breytt. Um leið og þeir mættu útlendingunum lyppuðust þeir niður og við sitjum hér uppi með verstu samningsmistök Íslandssögunnar, ekki einu sinni, virðulegi forseti, heldur tvisvar.

Það er enginn með sannfæringu fyrir þessu máli hér inni, það er enginn sem trúir því að hér hafi verið faglega eða vel að verki staðið. Af hverju styðja stjórnarliðar þessa niðurstöðu? Af tveim ástæðum: Vinstri grænir, sem við getum kallað valdaglaða, gera það út af völdum, og ég vek athygli á því að svokölluð samviskudeild innan þeirra raða er búin að raða sér snyrtilega á breytingartillögur þannig að málið færi örugglega í gegn. Slík er sannfæringin og samviskan. Hin ástæðan er að Samfylkingin trúir því, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, að við öðlumst virðingu hjá Evrópusambandinu með því að lyppast niður (Forseti hringir.) og hún trúir því að þetta muni reddast einhvern veginn (Forseti hringir.) ef það verður bara farið í þetta stórkostlega ríkjabandalag vinaþjóða okkar. [Háreysti í þingsal.]