138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:48]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Í 2. gr. þess frumvarps sem hér er um að ræða er sérstaklega kveðið á um það að við Íslendingar berum ekki lagalega ábyrgð á þeim greiðslum sem á nú að leggja á okkur. Það á að segja já við þessu, virðist vera, vegna þess að það er verið að hóta okkur, það er verið að hóta okkur af erlendum ríkjum. Ég tel, frú forseti, að úr því að ríkisstjórnin lagði málið upp með þessum hætti sé okkur ekki heimilt, engum þingmanni, að segja já við þessu. Okkur er ekki heimilt, frú forseti, þingmönnum á Alþingi Íslendinga að láta beygja þjóðina með þessum hætti af erlendum ríkjum. Okkur ber að segja nei og það er hörmulegt að ríkisstjórninni skuli hafa mistekist að ná samstöðu á Alþingi og með þjóðinni í málflutningi okkar gegn hinum erlendu ríkjum sem ætla að kúga okkur til þess að greiða peninga sem (Forseti hringir.) okkur ber ekki skylda til að greiða.