138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

þingfrestun.

[23:27]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Háttvirtir alþingismenn. Komið er að lokum þessa síðasta fundar Alþingis á þessu ári. Þetta ár hefur verið óvenjulega annasamt (Gripið fram í.) á Alþingi. Þingið hefur þurft að taka á mörgum erfiðum málum og nú hefur fengist niðurstaða í stærsta deilumál þessa þings. Ég vona að í kjölfar þess gefist okkur alþingismönnum tækifæri til þess að fjalla um þingmálin á vetrar- og vorþingi í meiri sátt en verið hefur fram til þessa. Það dylst engum að á nýju ári bíða okkar mörg mikilvæg viðfangsefni. Eftir að Alþingi kemur saman á ný síðari hluta janúar fær þingið skýrslu rannsóknarnefndar um bankahrunið og væntanlega mun upphaf vetrarþingsins nokkuð mótast af umfjöllun um þá skýrslu. Ég vil lýsa ánægju með hversu góð samstaða tókst um þá málsmeðferð sem skýrslan fær á vettvangi þingsins.

Ég færi við þetta tækifæri sérstakar þakkir starfsmönnum þingsins fyrir mikla og góða aðstoð við þingstörfin á árinu. Hún hefur verið meiri nú en nokkru sinni áður. Jafnframt vil ég geta þess að við þessi áramót lætur af störfum á 52. starfsaldursári Jón Ólafsson ræðuritari. Honum skal nú þökkuð sérstök trúmennska og einstök afköst í starfi fyrir Alþingi í meira en hálfa öld við að skrifa ræður þingmanna.

Alþingismönnum öllum þakka ég fyrir samstarfið á því sögulega ári sem nú er brátt á enda. Þeim sem eiga langan veg heim að fara óska ég góðrar heimferðar og heimkomu og bið þess að við megum öll hittast heil á nýju ári. Landsmönnum sendi ég mínar bestu nýársóskir.