138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

þingfrestun.

[23:28]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Fyrir hönd okkar alþingismanna flyt ég hæstv. forseta og varaforsetum öllum þakkir fyrir samstarfið á þessu haustþingi og ekki síst vil ég þakka forseta fyrir samstarfið við okkur þingflokksformenn. Það hefur auðvitað oft tekið á eðli máls samkvæmt, hér hafa verið erfið mál til umfjöllunar. En ég vil fyrir hönd okkar alþingismanna allra óska forseta og fjölskyldu hennar farsæls komandi árs.

Auðvitað erum við missátt við niðurstöðu þeirra mála sem hér eru til umfjöllunar. Það er eðli þess starfs sem okkur er falið að vinna. En nú er þessu haustþingi lokið og fram undan er vetrarþingið og við munum koma til þeirra verka full bjartsýni og af krafti því að enginn leysir þau erfiðu verkefni sem okkar bíða með svartsýni eða uppgjöf að vopni. Þetta verður viðburðaríkt vetrarþing og við alþingismenn munum nota þann tíma sem nú gefst til þess að undirbúa okkur undir þau störf. Við munum undirbúa þingmál okkar og við munum nota þann tíma sem nú gefst til að vinna í kjördæmum, til að hitta fólkið í kjördæmunum og ráða ráðum okkar.

Ég vil alveg sérstaklega við lok þessa mjög svo annasama haustþings færa þakkir frá okkur þingmönnum öllum til starfsfólks Alþingis sem hefur unnið gríðarlega gott starf og lagt á sig mikla vinnu til að auðvelda okkur hér störfin.

Að lokum sendi ég landsmönnum öllum mínar bestu nýárskveðjur með von um bjarta og góða framtíð fyrir landið okkar. Ég bið nú hv. þingmenn um að taka undir kveðjur mínar til forseta með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]