138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[10:48]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar forseti synjaði lögunum staðfestingar stóðum við í rauninni frammi fyrir þremur kostum: Að samþykkt verði heildarlög um þjóðaratkvæðagreiðslu, svo sem frumvörpin tvö sem núna eru til umræðu gera ráð fyrir, að setja reglur um þetta í reglugerð eða þá að setja sérlög sem einungis eiga við um þessa atkvæðagreiðslu. Vegna þess að tíminn er knappur var þessi leið ákveðin og það sýnir sig best í því að við sjáum að þjóðaratkvæðagreiðslan sjálf er langt undan þrátt fyrir að flýtir sé hafður á. Þá er það einungis vegna undirbúnings kosninganna og utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Þess vegna tel ég ekki að tími gefist til að setja á fót stofnun eða annað, eins og gert er ráð fyrir í því frumvarpi sem þegar er til meðferðar á Alþingi og í allsherjarnefnd. Vissulega ræddum við gerð kynningarefnis í dómsmálaráðuneytinu og hvort dómsmálaráðuneytið ætti að hlutast til um að gera slíkt kynningarefni en niðurstaðan var sú að það gæti orkað tvímælis að stjórnvöld gerðu kynningarefnið sjálf. Það þyrfti að vera hlutlaust kynningarefni, eins og þingmaðurinn bendir á. Það var því rætt hvort það ætti þá að veita fjármuni til andstæðra fylkinga til að útbúa sitt kynningarefni en það yrði þá ákvörðun sem Alþingi yrði að taka.