138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála formanni Sjálfstæðisflokksins um að við eigum að horfa fram á veginn. Reynum að finna hvar hægt er að ná samstöðu. Hv. þingmaður verður þá að tala skýrt um hvað það er sem hann vill. Það er stundum erfitt að átta sig á því. Hv. þingmaður byrjaði vegferð sína í þessu máli með því að vilja samningsleiðina. Síðan vildi hann dómstólaleiðina. Síðan vildi hann fella málið. Síðan vildi hann vísa því til ríkisstjórnarinnar. Síðan vildi hann taka fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur.

Hvað vill hv. þingmaður núna? Er hann að leggja til að við hættum við þjóðaratkvæðagreiðsluna og reynum að gera eitthvað annað? Ef svo er, hvernig stendur þá á því að Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu hér? Ég spyr hv. þingmann: Á hvaða grundvelli telur hann að við getum náð samstöðu? Til er ég.