138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:09]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði í þessum sal í umræðum um þetta mál að ekki stæði annað til hjá stjórnarandstöðunni en að flækjast fyrir í þessu máli vegna þess að það væri enginn raunverulegur áhugi hjá henni á því að ríkisstjórninni tækist að afgreiða það. Það sem fram kemur í ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar áðan staðfestir þetta. Þegar búið er að sundra þjóðinni í þessu máli (Gripið fram í: Hvaða ríkisstjórn …?) er það boðið af stjórnarandstöðunni að við sameinumst í sátt á forsendum stjórnarandstöðunnar. Sem sagt, ef þið eruð tilbúin til að vera sammála okkur bjóðum við sátt.

Af hverju ættum við í stjórnarmeirihlutanum að trúa því sem stjórnarandstaðan segir í dag ef ekkert var að marka það sem hún sagði í síðustu viku? Af hverju ættum við eitthvað frekar að trúa því að þeir séu að meina það sem þeir eru að segja í dag en í síðustu viku? (Gripið fram í: Það var …) (Forseti hringir.) Þeir buðu fram tillögu um þjóðaratkvæði. Í fjölmiðlum í dag kemur í ljós að þeir meintu ekkert með því sem þeir sögðu.