138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:10]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stjórnarliðar eru mættir hingað í dag til að vera í sínum spuna. Það er greinilegt. Við erum ekki á móti neinu sem við sögðum í síðustu viku. Við erum komin hingað í dag til að samþykkja lög um að framkvæma þjóðaratkvæðagreiðslu. Höfum það á hreinu. Sú þjóðaratkvæðagreiðsla mun að öllum líkindum fara fram, og sérstaklega ef það er viðhorf stjórnarliðanna að engin ástæða sé til að staldra núna við og velta fyrir sér öðrum möguleikum. Gott og vel, hvers vegna er það sem stjórnarliðar ættu annars að velta því fyrir sér? Gæti það verið vegna þess að þeir hafa sjálfir sagt að í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu verði líf ríkisstjórnarinnar að veði? Ætli þeim sé alveg sama um það? Liggur þeim það kannski í léttu rúmi eða vilja þeir kannski leggja líf ríkisstjórnarinnar að veði í þjóðaratkvæðagreiðslunni til að kosið verði um það en ekki um samninginn? (Gripið fram í: Stjórnin samþykkti það.)