138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:18]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa lýst vonbrigðum með ræðu hv. formanns Sjálfstæðisflokksins. Það er satt að segja erfitt að átta sig á málflutningi hans í dag og ég tek undir með hæstv. utanríkisráðherra áðan þegar hann rakti raðsinnaskipti formanns Sjálfstæðisflokksins á undanförnum mánuðum í þessu máli þar sem hann boðar eitt í dag og annað á morgun.

Ég held að við þurfum að leggja ákveðinn grunn og ef það á að vera sátt um eitthvert framhald á þessu máli í samvinnu allra þingflokka verða menn að hætta að tala með þeim óábyrga hætti sem formaður Sjálfstæðisflokksins virðist því miður ætla að halda áfram að gera í dag. Hann hefur sjálfur talað fyrir því að farin verði samningaleið. Þar hlýtur hann að hafa ætlast til að ná einhverri lágmarksniðurstöðu. Hann var í samningatogi í sumar með öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í margar vikur til þess eins að hlaupa síðan frá samningunum þegar þeir lágu fyrir. (Gripið fram í.) Núna verða menn að geta staðið í lappirnar og sagt um hvað (Gripið fram í.) þeir ætla að semja ef þeir eru tilbúnir til að semja. (Forseti hringir.) Þessi undanbrögð og þessi vingulsháttur gengur ekki lengur.