138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:22]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hafa staðið yfir samningaviðræður í 15 mánuði, sagði hæstv. ráðherra. Ég hef ekki tekið þátt í þeim samningaviðræðum. Það er ríkisstjórnin sem ákvað sjálf að halda stjórnarandstöðunni frá málinu frá því að hún tók við 1. febrúar og ber ein ábyrgð á niðurstöðunni. (Gripið fram í.) Sú niðurstaða var fengin fram af ríkisstjórninni einni (Gripið fram í.) og ég frábið mér að menn komi hingað upp og óski eftir því að ríkisstjórnin axli ábyrgð á niðurstöðu sem ríkisstjórnin hefur ein og án hjálpar frá stjórnarandstöðunni dregið fram.

Varðandi afstöðu atvinnulífsins skil ég það vel að menn óski eftir niðurstöðu í þessu máli og skýrum línum. En hver er staðreynd málsins? Ríkisstjórnin hefur verið ófær um að leysa málið. Hún er ófær um að leysa þetta mál. Ástæðan fyrir því að við erum á þeim stað sem við erum í dag er sú að ríkisstjórninni hefur algerlega mistekist að leiða fram niðurstöðu sem sátt ríkir um á þingi og meðal þjóðarinnar. (Forseti hringir.) Við getum ekki kennt forsetanum um þessa stöðu og stjórnarandstöðunni verður svo sannarlega ekki kennt um þetta. Ábyrgðin er öll hjá ríkisstjórninni.