138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:23]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vona að upphaf þessarar umræðu sem hér hefur birst okkur á fyrsta klukkutímanum sé ekki lýsing á því sem koma skal á þessum degi. Ég held að við þurfum á öðru og meira að halda núna þessa stundina (Gripið fram í.) en að vera hér með háværar deilur um stöðuna. Staðan er alvarleg og við þurfum að ræða málin út frá öllum sjónarhornum.

Forseti Íslands hefur vísað Icesave-lögunum sem Alþingi samþykkti 30. desember í dóm þjóðarinnar til staðfestingar eða synjunar. Eftir að það lá fyrir 5. janúar var alveg ljóst að það var frumskylda ríkisstjórnarinnar samkvæmt stjórnarskránni að undirbúa þá þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég vil byrja á því að þakka formönnum stjórnarandstöðuflokkanna fyrir þær undirtektir sem við formaður Vinstri grænna fengum þegar við kölluðum þá á fund okkar sama dag og forseti hafnaði lögunum og vísaði málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá er ég að tala um þær undirtektir sem við fengum við það að frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslu yrði lagt fyrir Alþingi í dag og að samstaða næðist um að afgreiða það á einum degi enda er eins og hér hefur komið fram um tiltölulega einfalt mál að ræða að efni til.

Forseti Íslands rökstuddi ákvörðun þá sem hann tók 5. janúar með því að um væri að ræða lýðræðiskröfu og meirihlutavilja þingmanna, en forsetinn horfði ekki til niðurstöðu Alþingis um að hafna tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu eða til annarra röksemda og sjónarmiða sem fram komu í málinu og virtust ekki hafa áhrif á niðurstöðu forsetans. En við skulum auðvitað átta okkur á því að þennan málskotsrétt hefur forsetinn og um það þýðir ekki að sakast þó að menn hafi skiptar skoðanir um það hvenær og hvort honum sé beitt og finna megi rök fyrir því að nauðsynlegt væri að undanskilja fjárhagsmálefni ríkisins og fjárhagsskuldbindingar við önnur ríki í slíkum rétti, eins og gert er í lögum um þjóðaratkvæði í Danmörku. Í okkar stjórnarskrá er ekki að finna neina slíka takmörkun.

Vissulega er þjóðinni steypt út í ákveðna óvissu með þessari ákvörðun. Þeim efnahagsplönum sem byggt var á og unnið var eftir er teflt í mikla óvissu. Jafnframt er um að ræða að þetta er flókið mál til að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og það var mín skoðun að það væru síður líkur á því að forseti mundi senda þetta mál til þjóðaratkvæðagreiðslu. Hafði ég átt samtöl við hann eins og fram hefur komið áður en hann tók ákvörðun sína. Mér þótti miður að forsetinn skyldi ekki tilkynna mér eða ríkisstjórninni um ákvörðun sína fyrr en á sama tíma og hún var kynnt þjóðinni. Ég hafði rætt við forsetann um að hann mundi láta okkur vita í einhvern tíma áður en ákvörðunin yrði kynnt þannig að við hefðum svigrúm til að vita hver niðurstaðan yrði. Komið hefur fram, bæði í blöðum og hér, að ríkisstjórnin hafi ekki búið sig undir þessar ákvarðanir en því vísa ég á bug. Ríkisstjórnin var búin undir hvort tveggja til þess að koma því á framfæri á innlendan og erlendan vettvang en auðvitað hefði verið æskilegra að við hefðum haft meira svigrúm til þess en forsetinn gaf okkur. Á því hljóta að vera einhverjar skýringar sem forsetinn kemur þá sjálfur á framfæri.

Það hefur komið fram, m.a. áðan hjá hæstv. utanríkisráðherra, að ríkisstjórnin hefur verið í gífurlega miklum samskiptum við erlenda aðila, erlenda þjóðarleiðtoga, til að kynna stöðuna í Icesave-málinu. Hvet ég þingmenn til að kynna sér yfirlit yfir þær aðgerðir og við hverja hefur verið haft samband. Þær upplýsingar eru hér á þrem blaðsíðum sem ég hef ekki tíma til að fara yfir.

Fyrir mitt leyti legg ég mikla áherslu á að gildandi stjórnarskrá sé fylgt í hvívetna og úr því að þessi ákvörðun forseta liggur fyrir er stjórnvöldum enginn annar kostur fær en að búa svo um hnútana að þjóðaratkvæðagreiðsla geti átt sér stað hnökralaust og eins fljótt og auðið er, eins og flokkar á Alþingi hafa komið sér saman um að gera hér í dag. Margt athyglisvert hefur komið fram í sambandi við afstöðu stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi og síðast þegar við ræddum þetta mál hér fyrir áramótin var afstaða þeirra önnur til þjóðaratkvæðagreiðslu en hún er núna strax eftir áramótin þegar fyrir liggur að forsetinn hefur ákveðið að beita málskotsrétti og vísað málinu til þjóðarinnar.

Við lokaafgreiðslu Alþingis á Icesave-frumvarpinu kom fram breytingartillaga um að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um ríkisábyrgðina vegna Icesave-lánsins. Alþingi felldi þá tillögu Péturs Blöndals naumlega. Svipuð tillaga var líka borin upp af hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni en hún var felld með meiri mun. Forseti hefur vísað til þess að fyrri tillaga hafi í raun notið meirihlutastuðnings á Alþingi og vísar þar til niðurstöðu nokkurra stjórnarliða sem skrifuðu nöfn sín á áskorendalista til forsetans. Ég tel nú að við hljótum að skilja niðurstöðuna sem fram kemur hér á Alþingi svo að hún eigi að gilda í málinu.

Nú hefur það gerst að stuðningsmenn tillögunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir áramótin hafa með einum eða öðrum hætti viðurkennt að um marklausar tillögur hafi verið að ræða, tillögur sem voru fluttar til að gera tilraun til þess að stöðva frumvarpið. En þegar forseti gerir alvöru úr því að beita málskotsréttinum snúa þessir þingmenn sem áður töluðu sig heita fyrir þjóðaratkvæði gjörsamlega við blaðinu og telja nú betra að semja um málið á nýjan leik en að þjóðin fái að kjósa um það. Ég tel að þarna hafi verið um sérstakan leik að ræða af hálfu stjórnarandstöðunnar, að ræða þannig um grundvallarréttindi kjósenda. Honum eiga menn ekki að beita fyrir sig í einhverjum hráskinnaleik, heldur að sýna þeim lýðræðisrétti fulla virðingu.

Ég tel að frumvarpið um framkvæmd væntanlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu sé einfalt í siðum. Í því eru engar takmarkandi reglur og ég hef fulla trú á að þorri kosningarbærra manna muni gera upp hug sinn og taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Síðan hafa núna komið upp fleiri fletir á þessu máli. Maður veltir fyrir sér, m.a. út af því sem fram hefur komið hjá stjórnarandstöðuflokkunum, hvort einhverjir aðrir möguleikar séu raunhæfir í þeirri stöðu sem upp er komin. Nú er kallað eftir því að skipuð verði samninganefnd eða komið á einhvers konar sátt í málinu. Þá væri gott í þessari umræðu að fá fram hvort stjórnarandstaðan hafi lagt það upp fyrir sig hvernig sú sátt eigi að vera og hvað eigi að vera í henni, á hvaða grundvelli þessi sátt eigi að byggjast. Hver eru efnisatriðin og hver eru þau efnistök sem menn vilja hafa í því máli?

Ég lýsi því hér yfir að það þarf að koma til meginbreyting á forsendum, svo sem nýtt og raunhæft samningaferli sem gæti leitt til nýrra lausna á skömmum tíma eigi það að koma til greina að taka málið úr farvegi þjóðaratkvæðagreiðslu. Slíkt er ekki í sjónmáli, ekki í augnablikinu að mínu viti, og það dugar ekki að stjórnmálaflokkar lýsi vilja til þess að semja bara við sjálfa sig á Alþingi. Forseti hefur skotið Icesave-málinu til þjóðarinnar og það á ekki að taka af henni þann lýðræðislega rétt að fá að kjósa um það nema eitthvað annað raunhæft sé þá í boði. Á hinn bóginn er aldrei skynsamlegt að loka öllum dyrum á nýja möguleika líti þeir dagsins ljós og væri rétt að kanna hvort samstaða gæti orðið um það á Alþingi. Yfir það verður sjálfsagt farið hér í umræðunni.

Nefnt hefur verið að það kunni að rýra möguleika til endurskoðunar samninganna ef þeir eru samþykktir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hugsunin er þá sú að það verði erfiðara fyrir stjórnvöld í framtíðinni að vísa til þess að hér hafi verið um hálfgerða nauðungarsamninga að ræða og að höfða til sanngirni viðsemjenda hafi þjóðin samþykkt samningana. Þetta kann að vera sjónarmið, en á hinn bóginn er hvort eð er ekki fyrir hendi að Bretar og Hollendingar muni sýna sérstaka sanngirni við endurskoðun samninganna. Það er ekkert sérstakt sem bendir til þess. Það sem getur leitt til endurskoðunar samkvæmt samningunum er verri skuldastaða landsins og samkvæmt lögunum úrlausn dómstóla sem felur í sér að íslenska ríkinu hafi ekki verið skylt að taka þessa skuldbindingu á sig. Þessir tveir þættir eru auðvitað hluti af þeim lögum sem þjóðin mun greiða atkvæði um. Samþykki þjóðin að lögin haldi gildi sínu er hún jafnframt að samþykkja hinn lagalega fyrirvara og endurskoðunarákvæði samninganna og því engan veginn hægt að segja að þeir muni eitthvað veikjast við atkvæðagreiðsluna.

Rætt hefur verið um hvort efna eigi til nýrra samningaviðræðna og kanna hvort völ sé á betri samningi sem gæti orðið tilefni til að afturkalla þjóðaratkvæðagreiðslu. Í því efni þarf að huga vel að því að ekki sé litið svo á að verið sé að ganga á lýðræðislegan rétt þjóðarinnar til að segja hug sinn um samningana. Vilji menn komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslu um hinn endurskoðaða samning hníga þung rök til þess að nauðsynlegt sé að um það mál náist breið pólitísk sátt hér innan lands, milli þingflokkanna á Alþingi. Spurning er líka með forsetann því að það er ekki hægt að útiloka að hann grípi til synjunarvalds á ný og synji nýjum lögum staðfestingar ef þau verða til. (Gripið fram í.)

Það er brýnt að menn geri sér ljóst að samningaleiðin felur í sér að Icesave-lögin verði dregin til baka og þar með fallið frá þjóðaratkvæðagreiðslu, enda er ekkert sjálfgefið að Bretar og Hollendingar séu til viðræðu um að endurskoða samningana fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru mikil vandkvæði og virðist nánast ómögulegt að ætla að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu og vera á sama tíma í nýjum samningaviðræðum. Slíkt B-plan, ef má orða það svo, yrði hvort eð er að gera opinbert og það yrði að njóta víðtæks pólitísks stuðnings. Yrði þá ekki líklegra en ella að samningar yrðu felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu ef starfandi væri samninganefnd sem er að leita nýrra og skárri samninga? (Gripið fram í.) Hitt er svo annað mál að ekkert er því til fyrirstöðu að fulltrúar ríkjanna og þjóðþinganna ræði málin til að átta sig betur á stöðunni og því hvað menn gera ef samningar verða felldir.

Það virðist því blasa við að velja þurfi annan hvorn kostinn, að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu eða reyna að ná hinni breiðu pólitísku sátt og sannfæringu um að nýtt samningaferli skili árangri. Takist það þarf að afnema lögin og ganga til nýrra samningaviðræðna. En menn verða þá að gefa sér tiltölulega stuttan tíma í það til að þjóðaratkvæðagreiðslan geti farið eðlilega í gang.

Maður spyr: Á hvaða grundvelli á slík sátt að vera og milli hverra? Mér virðist það ekki liggja ljóst fyrir. Reynist ekki vera grundvöllur fyrir víðtækri pólitískri sátt verður því haldið fram með sterkum rökum að forsendur fyrir leið B, samningaleiðinni, séu brostnar og er þá einboðið að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu eins og að er stefnt nú.

Vera kann að Bretar og Hollendingar sjái óhagræði af því að mál af þessu tagi er varðar lánasamninga fari í þjóðaratkvæðagreiðslu hjá lántaka sem gæti skapað hættulegt fordæmi frá þeirra sjónarhóli. Ef gengið yrði frá nýju samkomulagi gætu Bretar og Hollendingar viljað fá fullvissu fyrir því að það yrði ekki borið undir þjóðaratkvæði. Þá spyr maður: Hvað yrði um lýðræðisréttinn og málskotsréttinn? Það kann að reynast erfitt að veita slíka fullvissu.

Af framansögðu má ráða að það er einfaldara að tala um pólitíska samstöðu á Alþingi sem allsherjarlausn á Icesave-málinu en að tryggja að hún skili árangri sem er í samræmi við stjórnarskrá okkar, afstöðu forseta til málskotsréttarins og vilja viðsemjenda okkar. Málið er flókið og ekki heiglum hent að skera á þennan gordionshnút sem okkur hefur ekki tekist að leysa og varð síst einfaldara úrlausnarefni með ákvörðun forseta sem aukið hefur á óvissuna í efnahags- og atvinnumálum.

En við skulum ræða þetta og sjá hver niðurstaðan verður. Það er ekkert annað sem hefur komið fram núna í kortunum á þessu augnabliki, þó að það kunni sannarlega að breytast, en að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu. Auðvitað eigum við að hafa opinn hugann fyrir því ef aðrar leiðir eru færar sem sátt er um. Það er þó ekkert einfalt mál eins og ég hef verið að reyna að lýsa hér.