138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:40]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við í ríkisstjórninni og stjórnarliðar erum einfaldlega að reyna að átta okkur á þeim viðsnúningi sem orðið hefur hjá stjórnarandstöðunni í því efni. Hér var talað mjög hástöfum fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir áramótin sem stjórnarandstæðingar virðast nú vera að hlaupa frá. Það er ekkert auðvelt fyrir ríkisstjórnina að taka bara eins og skot undir að það eigi að fara einhverjar aðrar leiðir af því að hún hefur ákveðnar skyldur eftir að forseti hefur nýtt þennan málskotsrétt og vísað málinu til þjóðarinnar. Við þurfum að fá það miklu skýrar fram en fram hefur komið hér á hvaða forsendum eigi að byggja þessa sátt. Er það á því að ná til baka því sem út af stóð í ágúst, sem ekki voru ýkja margir hlutir, eða er það einhver önnur leið eða aðrar leiðir eða efnistök sem stjórnarandstaðan (Forseti hringir.) vill hafa á þessu máli? Mér finnst að stjórnarandstaðan skuldi okkur í ríkisstjórninni og stjórnarliðum að tala nokkuð skýrar í þessu máli ef málið á (Forseti hringir.) að vera með þeim hætti að það eigi að snúa hér við blaðinu. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Snúa við blaðinu.)