138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:43]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta virkar á mig og reyndar fleiri úti í samfélaginu sem hreinn viðsnúningur. Það er eðlilegt að við áttum okkur á þessari stöðu. Við hljótum líka að meta þá stöðu sem upp er komin með ákvörðun forsetans, hvaða áhrif þetta hefur á efnahags- og atvinnulífið í landinu. Við höfum okkar skoðun á því, höfum lýst henni og höfum alvarlegar áhyggjur. Við tökum líka eftir því hvað erlendir fjölmiðlar segja, t.d. var í morgun sagt í tímaritinu Economist , með leyfi forseta:

„Á þessu stutta tímabili hefur ríkisstjórnin tekið nokkrar óþægilegar ákvarðanir og var farin að öðlast varfærna virðingar á alþjóðavettvangi fyrir það hvernig hún hefur nálgast nær óleysanleg verkefni. Hún hefur hafið endurbyggingu viðkvæms efnahags- og atvinnulífs og öðlast vott af trú umheimsins. Icesave-málið var síðasta púslið í endurreisninni. Ísland var að því er virtist á trúverðugri en skuldahlaðinni leið til bata og lokamarkmiðið var aðild að Evrópusambandinu.“ (Forseti hringir.) Síðan var bætt við að nú riðaði endurreisnin til falls.

Við hljótum líka að skoða stöðuna í því ljósi hvað best er að gera til þess að öðlast trú alþjóðasamfélagsins á ný, (Forseti hringir.) þess vegna er ekki sama hvernig á þessu máli er tekið.