138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:45]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þeim frumvörpum sem ég hef í gegnum árin flutt um þetta mál hef ég alltaf haldið því til haga að það væru mál sem væri erfitt að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og fjárlög íslenska ríkisins, eins og skattamál og ýmsar þjóðréttarlegar skuldbindingar. Það er ljóst að ég hef talið það. En ég vil líka taka undir það sem hv. þingmaður sagði að það er ekki leið til að ná niðurstöðu að vera að semja við sjálfan sig. En það var það sem við gerðum í sumar. Við sátum hér og sömdum niðurstöðu sem við vildum fá og töldum að Hollendingar og Bretar mundu kokgleypa það sem við segðum í því máli og vorum mjög hissa á að þeir skyldu ekki gera það. Þeir hefðu alveg eins getað á sínum þjóðþingum komið fram með hugmyndir sínar og tillögur í þessu máli, hvernig þeir vildu sjá það, og auðvitað er málið þannig vaxið að það er ekkert annað að gera. Ef málið verður fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu þurfum við alla vega að taka málið upp við Hollendinga og Breta og semja um það og þá getur það orðið erfitt og snúið þegar búið er að fella málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.