138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir tiltölulega skýr svör við spurningum mínum. Hún lítur þá ekki þannig á að verið sé að kjósa í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu um líf og framtíð ríkisstjórnarinnar né heldur um líf og framtíð forsetans á forsetastóli. Það liggur þá líka fyrir að ríkisstjórnin er ekki starfsstjórn eins og haldið hefur verið fram.

Það liggur þá fyrir að við erum að fara að kjósa um efni máls eins og ætti að vera hverjum manni augljóst. Það er hins vegar fullt tilefni til að spyrja þessara spurninga. Nú rétt áðan birtust fréttir af því að hæstv. viðskipta- og efnahagsráðherra hefði sagt við erlenda fjölmiðla að líf stjórnarinnar héngi á því hver niðurstaðan yrði í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. En það er ekki þannig að verið sé að kjósa um það hvort menn vilji þennan óbreytta Icesave-samning eða það ástand sem nú er. Það er ekki þannig að nokkur maður vilji búa við þá óvissu sem nú er en það er hins vegar ekki svo að hægt sé að fella sig við þá lagalegu niðurstöðu sem fékkst við lagasetninguna rétt fyrir áramótin (Forseti hringir.) sem leggur miklar byrðar á almenning og mun rýra lífskjör. (Forseti hringir.) Fólk mun taka afstöðu til þess hvort það vill (Forseti hringir.) samþykkja samning sem rýrir lífskjör þess.