138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:58]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Stjórnarandstaðan lagði fram tilboð um að reyna einhvers konar samstarf til að fá betri samning en fær svo framan í sig frá hæstv. forsætisráðherra: Þið hafið skipt um skoðun, það er sérkennilegt hvernig þið talið núna. Viljið þið ekki þjóðaratkvæðagreiðslu eða hvað? Forsætisráðherra sem talar þannig vill ekki samstarf, virðulegur forseti. Það er verið að ýta stjórnarandstöðunni frá en ekki reyna að taka í útrétta hönd hennar. Það er verið að slá á hana með þessu tali. Við skulum bara fara að tala um þjóðaratkvæðagreiðsluna sjálfa. Eva Joly hefur talað við þá sem sömdu tilskipunina. Hún átti ekki að fjalla um það þegar heilt bankakerfi heillar þjóðar hrynur. Hún átti ekki að fjalla um það, þessi tilskipun. Eva Joly segir líka að Bretar og Hollendingar komi ekki vel fram við okkur. Það þarf að semja betur. Þetta er þjófnaður á almannafé, virðulegi forseti.

Eiríkur Tómasson hefur líka tjáð sig. Ég tel að við eigum að nota tímann í að fjalla um þessa (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki þykjast vera í einhverjum leik hér (Forseti hringir.) að ætla að semja upp á nýtt á næstu dögum. Hæstv. forsætisráðherra vill það (Forseti hringir.) greinilega ekki og er að tala stjórnarandstöðuna frá málinu.