138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er mjög undarlegt hvernig þessi umræða hefur þróast hér í dag. Aftur og aftur heyrum við í stjórnarandstöðunni spurninguna um hvað sátt eigi að snúast, um hvað menn eigi að taka saman höndum. Það er mjög einfalt svar við því: Einfaldlega það að ná betri samningi, tryggja betur stöðu Íslands. Og við höfum aldeilis fengið stuðning við það undanfarna daga, ekki hvað síst utan frá, að Íslendingar eigi að fá betri samning, það eigi að koma betur fram við þá, þeir eigi ekki skilið það sem í þessu Icesave-frumvarpi felst.

Ég hélt að ríkisstjórnin mundi grípa tækifærið þegar forsetinn synjaði lögunum staðfestingar til þess, eins og forseti nefndi sjálfur, að skapa samstöðu um málið. Það hefði verið tiltölulega einfalt, ekki þurft annað til en að ríkisstjórnin segði sem svo að hún hefði reynt hvað hún gat til að koma frumvarpinu í gegn, ekki vegna þess að hún teldi það gott frumvarp eða að Íslendingar ættu þetta skilið eða að okkur bæri að taka á okkur allar þessar skuldbindingar, heldur vegna þess eins og ríkisstjórnin hefur margoft haldið fram í þinginu að það væri verið að þvinga okkur til þess. Þess vegna ættum við ekki annan kost. Það er verið að þvinga okkur af hálfu Breta og Hollendinga, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Norðurlandanna vegna þess að ef skoðun ríkisstjórnarinnar er raunverulega sú að það sé það sem er að gerast verður hún að vera tilbúin til að segja það opinberlega. Ég held að almenningur, a.m.k. á Norðurlöndunum og raunar í Bretlandi líka og Hollandi, vilji ekki að komið sé fram við Ísland með þeim hætti. Að því búnu hefði verið hægt að segja: Ja, íslenska þjóðin er engu að síður mjög ósátt. Mikill meiri hluti þjóðarinnar er mjög ósáttur við þetta og sættir sig ekki við þessar þvinganir. Við skiljum það.

Ríkisstjórnin hefði alveg getað brotið odd af oflæti sínu og sagt: Við skiljum afstöðu þjóðarinnar í þessu máli. Auðvitað vill enginn láta þvinga sig. Þar gafst tækifæri til að kynna fyrir heiminum öllum, alþjóðasamfélaginu margumrædda, afstöðu Íslands og hvernig farið hefði verið með okkur. Þar með gafst líka tækifæri fyrir ríkisstjórnina til að sameina þjóðina að baki sér í því að berjast fyrir hagsmunum Íslands út á við. Við hljótum öll að vera sammála um að við viljum lágmarka tjónið sem allra mest. Við hljótum að geta a.m.k. náð saman um það.

Þess vegna skil ég ekki þessa spurningu: Um hvað á samstaðan að snúast? Samstaðan á að snúast um það að Íslendingar reyni hvað þeir geta til að lágmarka tjón sitt. Við höfum heldur betur séð það undanfarna daga að tækifærin eru til staðar til þess og það þrátt fyrir hvernig haldið var á málinu af hálfu ríkisstjórnarinnar í upphafi. Ég ætla ekki að dvelja lengi við það en ég verð samt að segja nokkur orð um það til að útskýra hvað við þurfum að gera öðruvísi.

Margir hafa talað um blaðamannafund ríkisstjórnarinnar. Þá hafa ráðherrar bent á móti á að starfsmenn í utanríkisráðuneytinu hafi lagt mikið á sig til að kynna málstað Íslands. Það hefur hins vegar tiltölulega lítið að segja þó að margir sitji við símann og hringi út um allan heim ef skilaboðin sem koma frá hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra eru á allt aðra leið. Við hverju var að búast þegar umræðan eftir ákvörðun forsetans snerist fyrst og fremst um reiði í garð forsetans, um það hversu óábyrg ákvörðun hans hefði verið, um það að Icesave-samningarnir væru það besta í stöðunni, að Icesave-samningarnir væru eina vitið fyrir Íslendinga, það að setja þá í uppnám gæti leitt hér til algjörs hruns og mundi líklega strax stórskaða hagsmuni Íslands?

Hvernig hefðu erlendir fjölmiðlar átt að fjalla um stöðu mála á Íslandi þegar leiðtogar þjóðarinnar tala með þeim hætti? Áttu þeir að segja: Þetta er ekki rétt? Áttu breskir ráðamenn að segja: Þetta er ekki rétt hjá íslensku ríkisstjórninni, Íslendingar gætu fengið miklu betri samninga? Áttu erlendir fjölmiðlar að segja: Þetta er ekki rétt hjá ríkisstjórninni, efnahagsástandið á Íslandi er í góðu lagi og þetta hefur ekkert með það að gera? Að sjálfsögðu varð umfjöllunin í upphafi eins og til var sáð. En svo sáum við hvaða áhrif það hafði þegar menn fóru að reyna að vinda ofan af þessu þó að tiltölulega seint væri. Þar hafa margir lagst á árarnar. Almennir borgarar í þessu landi hafa haft þar ótrúlega mikið að segja. Indefence-hópurinn sem safnaði undirskriftunum er líklega búinn að fara í u.þ.b. 100 viðtöl, jafnvel fleiri, við erlenda fjölmiðla, allt frá CNNAl Jazeera . Mér fannst dálítið lýsandi fyrir það allt saman þegar einn þeirra, Jóhannes Þ. Skúlason, sagði í viðtali eftir að hafa verið í viðtali á Al Jazeera , BBC og víðar að hann hefði spurt sig: Hvernig stendur á því að ég, Jóhannes Þ. Skúlason, grunnskólakennari í Breiðholti, er hér að svara fyrir Íslendinga í þessu máli en ekki ráðherrar í ríkisstjórninni?

Maður hlýtur að spyrja sig þessarar spurningar, ekki hvað síst nú í dag þegar við sjáum að forusta ríkisstjórnarinnar heldur áfram að einbeita sér að því að reyna að útskýra fyrir Íslendingum að þeir eigi að fallast á þessa samninga sem fólk um allan heim er nú farið að taka undir að séu algjörlega óásættanlegir fyrir Íslendinga.

Það eru gríðarleg vonbrigði ef ríkisstjórnin ætlar að festast í þessu hjólfari, þá líklega eingöngu vegna þess að hún telur sig búna að leggja það mikið undir, pólitískt séð, að hún komist ekki út úr því að verja það sem menn um allan heim sjá nú að eru mistök. Þá erum við líklega með svæsnasta dæmi um það að menn hafi tekið eigin pólitíska hagsmuni fram yfir hagsmuni heildarinnar.

Það er ekki of seint að snúa við en það þarf að gerast hratt. Nú eru ráðherrar að ferðast um heiminn. Og hvað segja þeir á þeim fundum? Hættan er auðvitað sú ef menn stilla þessari þjóðaratkvæðagreiðslu þannig upp að hún snúist um líf ríkisstjórnarinnar, að ríkisstjórnin telji sig þurfa endalaust þau skilaboð sem hún hefur sjálf flutt hér í þinginu, að Íslendingar eigi ekki annan kost en að samþykkja, raunar þurfi hræðsluáróður til að taka undir með hræðsluáróðri ríkisstjórnarinnar og því geti ráðherrarnir sem nú ferðast um og hitta kollega sína ekki sagt: Þið verðið að styðja okkur í því að ná betri niðurstöðu. Þeir neyðast til að segja: Hjálpið okkur að útskýra fyrir Íslendingum að þetta sé það sem þeir þurfa að samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hér eru tvær fréttir af ferðalögum ráðherra í dag, báðar af mbl.is, önnur af Gylfa Magnússyni sem segir í norsku blaði að ríkisstjórnin falli verði frumvarpið ekki samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann segir:

„Ríkisstjórn Íslands mun segja af sér ef þjóðin segir nei við ríkisábyrgð á Icesave-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Þetta segir Gylfi Magnússon, ég man nú raunar ekki fyrir hvaða flokk hann er kjörinn, þessi hæstv. ráðherra, en hann staðfestir hér að ríkisstjórnin muni segja af sér og leggur þannig líf stjórnarinnar að veði. Með öðrum orðum, við erum ekki að fara að kjósa um Icesave-frumvarpið fyrst og fremst að mati stjórnarinnar, heldur líf hennar, (PHB: Að mati hans.) að mati þessa ráðherra. Því miður hefur verið dálítið óþægilega mikill samhljómur hvað það varðar, sérstaklega hjá ráðherrum og þingmönnum Samfylkingarinnar.

En það er áhyggjuefni í hvað stefnir og má segja að fyrstu teiknin hafi birst strax eftir ákvörðun forsetans á blaðamannfundinum en svo næst í viðbrögðum ríkisstjórnarinnar eftir það. Hvað gerði hún? Hún boðaði til fundar með öllum helstu Icesave-sinnunum, þeim sem hafa verið duglegastir í að reka áróðurinn fyrir ríkisstjórnina um að það þyrfti að fallast á samningana. Það er svo sem í takt við það sem Dagens Nyheter hefur eftir seðlabankastjóra sem segir að Icesave-samningarnir boði ekki endalokin fyrir Ísland, heldur verði það miklu alvarlegra ef fólk segi nei við Icesave. Og með leyfi forseta:

„Þá verði gjaldeyrishöft ekki afnumin, vextir verði áfram háir, aðgangur að alþjóðlegum fjármálamörkuðum opnist ekki, lánshæfismat Íslands verði áfram í ruslflokki, hagvöxtur verði minni og endurreisn efnahagslífsins hægist mikið.“

Menn eru enn fastir í þessum gamla hræðsluáróðri sem löngu er búið að sýna fram á að engin innstæða er fyrir. Þeir leyfa sér jafnvel að halda því fram að krónan verði veik og gjaldeyrishöft haldist lengur ef menn samþykki ekki Icesave þrátt fyrir að jafnvel Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segi að leiðin til að greiða Icesave sé að viðhalda gjaldeyrishöftunum lengur, ekki skemur, við höldum gjaldeyrishöftunum lengur og höfum krónuna veikari í a.m.k. 10 ár, líklega miklu lengur en það. Samt leyfa menn sér enn, nú þegar fólk um allan heim er að tala máli Íslands, að koma fram með þessum hætti og halda áfram þessum innihaldslausa hræðsluáróðri til að reyna að sannfæra fólk um að fallast á það klúður, leyfi ég mér að segja, sem ríkisstjórnin er búin að skapa.

Með þessu er ekki verið að taka hagsmuni heildarinnar fram yfir flokkspólitíska hagsmuni eða hagsmuni einstaka þingmanna sem telja sig ekki mega við því að fá betri niðurstöðu.

Hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, er í Noregi. Þar var hann spurður hvers vegna Íslendingar ættu að borga fyrir mistök örfárra bankamanna. Svarið var: Hvers vegna er heimurinn ekki réttlátur? Þarna voru menn tilbúnir, og eru svo sannarlega í Noregi, til að verja málstað Íslands. En við afþökkum það, þ.e. fulltrúar okkar. Þetta má ekki halda svona áfram. Við megum ekki klúðra því tækifæri sem hefur skapast þessa dagana og er hugsanlega bara til staðar í dag og á morgun, við vitum ekki hversu lengi við náum eyrum umheimsins.

En í þessu blaði, Dagens Nyheter , er líka talað við íslenska konu sem heitir Anna Margrét Bjarnadóttir. Hún er flutt til Noregs og hún segir:

„Dóttir mín á ekki að verða skuldaþræll. Hún er saklaus og ég vil bara að hún fái að lifa góðu lífi. Það get ég ekki gefið henni á Íslandi. Margir sem ég þekki hafa flutt burt og ég vonast til að finna starf nægilega nálægt vinum dóttur minnar á Íslandi.“

Anna Margrét missti vinnuna á síðasta ári og glímir við erfiða skuldastöðu. Í viðtalinu segir hún að það sé dapurlegt að í Noregi og annars staðar á Norðurlöndunum stilli menn sér upp við hlið Evrópusambandsins og styðji ekki við bakið á Íslendingum. Sjálf var hún meðal þeirra sem skrifuðu undir áskorun til forseta Íslands um að synja Icesave-lögunum staðfestingar.

Í sama blaðinu er viðtal við þrjá Íslendinga, hæstv. viðskiptaráðherra Gylfa Magnússon, seðlabankastjórann og þessa konu, Önnu Margréti Bjarnadóttur. Anna Margrét útskýrir málið og talar máli Íslands. Það er hlustað því að viðbrögðin í Noregi eru þau, bæði meðal almennings og þingmanna, að menn geti ekki leyft sér að taka þátt í kúgun gagnvart Íslandi. Og hvað gerir svo norski utanríkisráðherrann? Hann lýsir því formlega yfir að Norðmenn muni ekki gera afgreiðslu Icesave-málsins að skilyrði fyrir lánveitingu. Þetta gerir hann ekki vegna aðkomu íslenskra ráðherra eða fyrir beiðni þeirra, þetta gerir hann vegna þess að almenningur á Íslandi hefur tekið frumkvæðið af ríkisstjórninni og útskýrt fyrir Norðmönnum og fólki í öðrum löndum hver staðan raunverulega er.

En ef við eigum að ná árangri, ef við eigum að ná betri niðurstöðu, verður ríkisstjórnin að koma með. Og hún verður að vera tilbúin til að ræða sáttaboð stjórnarandstöðunnar. Það er ekki rétt að þetta sé eitthvað nýtt, það hafi orðið einhver stefnubreyting hjá stjórnarandstöðunni. Alveg fram á síðasta dag, fram að 30. desember þegar atkvæðagreiðslan um Icesave fór fram, lagði stjórnarandstaðan til að farin yrði sú leið sem enn er talað fyrir hér; að mynda samráðshóp með fulltrúum allra flokka. Skömmu áður hafði ég lagt til að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir færi fyrir slíkum hópi. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er reyndar enn þá á því að þetta sé eina vitið en því miður virðist ekki hafa náð í gegn hjá flokksfélögum hennar að það verði að setjast niður að nýju og fara yfir málið í sameiningu. (Gripið fram í.)

Það eru þess vegna gríðarleg vonbrigði ef þetta á að þróast út í það að ríkisstjórnin ætli að reyna hvað hún getur til að hræða Íslendinga til að fallast á Icesave-skuldaklafann allan skilyrðislaust þrátt fyrir alla þá aðstoð sem okkur berst núna víða að. Það er í raun þyngra en tárum taki.

Og í ljósi þessara viðbragða ríkisstjórnarinnar get ég ekki annað en hugsað til dæmisögunnar um froskinn og sporðdrekann. Innan úr stjórnarliðinu kom einmitt áhugi á því að við hugsuðum málið upp á nýtt, mundum vinna saman. Þar er að sjálfsögðu fólk, fjölmargt fólk, sem gerir sér grein fyrir mikilvægi þess. En hvað er gert þegar stjórnarandstaðan ítrekar vilja sinn til þess? Það er notað sem tækifæri í endalausum spunaleik. Það er eins og menn ráði ekki við sig. Þeir ráða ekki við sig og setja það alltaf ofar ef þeir geta fundið tækifæri fyrir eina fyrirsögn eða að hnýta í stjórnarandstöðuna með athugasemdum einn dag á Alþingi. Þessu þurfum við að breyta. Við þurfum að vera tilbúin að vinna saman að lausn þessa máls því að tækifærin eru svo sannarlega til staðar.