138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:16]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann í tilefni þess að hann heldur uppteknum hætti og talar um hræðsluáróður varðandi það hvaða áhrif þessi ákvörðun hefur á efnahagslífið. Nú liggja fyrir staðreyndir og ég vil því spyrja hv. þingmann. Fyrir liggur að skuldatryggingarálagið hefur hækkað úr 420 punktum í 490 og það þýðir að fjárfestar hafa þegar minni trú á Íslandi. Það eykur óvissuna sem gæti dregið verulega úr líkum á vaxtalækkun Seðlabankans í lok mánaðarins og í sama streng tekur greiningardeildin. Vaxtakjör ríkissjóðs á innanlandsmarkaði hafa þegar hækkað verulega en ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf hefur hækkað umtalsvert og ríkissjóður þarf í allt að gefa út 240 milljarða kr. á þessu ári. Aðeins 1% hækkun á fjármögnunarkostnaði ríkissjóðs er því 2,4 milljarðar kr. Við þekkjum að Fitch hefur lækkað lánshæfismatið í ruslflokk. Við þekkjum að Orkuveitan hefur þegar sagt að við þessar aðstæður sé ekki hægt að sækja nýtt fjármagn. Við vitum að ef þessu heldur fram verður ekkert (Forseti hringir.) af stóriðjuframkvæmdum. Ég spyr hv. þingmann: Þetta liggur þó fyrir sem staðreyndir málsins, (Forseti hringir.) telur hann að þetta megi ekki rekja til ákvörðunar forsetans (Forseti hringir.) um þjóðaratkvæðagreiðslu?