138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:20]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ef ekki væri fyrir gjaldeyrishöftin væri krónan líklega í frjálsu falli. Ýmist notar ríkisstjórnin styrkingu krónunnar, (Forsrh.: Ég var að vísa í hagfræðing ASÍ.) örlítinn bút, (Gripið fram í.) sem ástæðu þess að hér gangi allt vel en svo snýst þetta allt um gjaldeyrishöftin. En það stendur ekki steinn yfir steini í þessum málflutningi hæstv. forsætisráðherra. Framkvæmdastjóri Orkuveitunnar er búinn að lýsa því yfir að þetta hafi engin áhrif þar á bæ. Framkvæmdastjóri Norðuráls segir að breyting á lánshæfismati ríkissjóðs breyti engu fyrir þá. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur sagt að þetta breyti engu um fjármögnun sveitarfélaganna, o.s.frv., o.s.frv. En ríkisstjórn Íslands vill halda eins fast og hún mögulega getur í leifarnar af hræðsluáróðri sínum í stað þess að berjast með þjóðinni. Þetta er algjörlega óskiljanlegt, frú forseti. Hvenær ætlar ríkisstjórnin að vakna og nýta tækifærin sem eru til að bæta hag Íslendinga?