138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er svo sem réttmæt gagnrýni hjá þingmanninum að ég hefði mátt tala meira um frumvarpið sjálft en ræðurnar á undan sem, ekki hvað síst frá hæstv. forsætisráðherra, voru á þá lund að það varð að svara þeirri umræðu sem þar var búið að setja af stað.

Hvað frumvarpið varðar líst mér bara mætavel á það, við höfum verið fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum um langt skeið, framsóknarmenn, og engin breyting orðið þar á og engin breyting orðið á hvað varðar þessa þjóðaratkvæðagreiðslu nú. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður er einn af þeim sem falla í þá gryfju að lesa bara fyrirsagnir blaðanna eða eins blaðs, í stað þess að kynna sér þann málflutning sem raunverulega er á ferðinni. Ég held að mönnum veiti ekkert af því að ræða málin hér í þaula í stað þess að tala eingöngu út frá fyrirsögnum.

Það hefur engin breyting orðið á því að við styðjum þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál og það hefur heldur engin breyting orðið á því að við styðjum það að leitað verði leiða til þess að stjórn og stjórnarandstaða geti unnið saman að því að tryggja sem best hagsmuni Íslands í (Forseti hringir.) þessu máli.