138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:28]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er áhugavert að hv. þingmaður, sem er virtur lögmaður leyfi ég mér að segja, metur það sem svo að verði synjun ofan á í þjóðaratkvæðagreiðslunni, gildi lögin frá því ágúst. Þetta hefur verið umdeilt en það er gott að þessi skoðun hv. þingmanns liggur fyrir og þá erum við væntanlega ekki á byrjunarreit. En hvað viljum við leggja fram, hverju viljum við ná í samningum? Þessi spurning hefur komið nokkrum sinnum í dag. Ég held að svo reyndur lögmaður sem hv. þingmaður er hljóti að gera sér grein fyrir því að menn fara ekki að lýsa því yfir í ræðustól Alþingis hvað þeir ætli að semja um, hver eigi að vera niðurstaða samninga. Það sem við getum náð saman um hér og nú er að nýta það tækifæri sem var í gær og er í dag og hugsanlega á morgun til að kynna málstað Íslendinga sem best og mest og halda því fram að Íslendingar ætli að sjálfsögðu að standa við allt sem þeir ber lagaleg skylda til, en þeir verði að njóta sannmælis og sanngirni þegar kemur að samningum.