138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir heldur leiðinlegt að heyra hv. þingmann fara í þann hóp sem heldur því fram að forseti Íslands hafi valdið tjóni. Hv. þingmaður var reyndar ekki viðstaddur þegar þingið greiddi atkvæði um Icesave-frumvarpið. Menn hafa verið með ýmsar getgátur um hver afstaða hv. þingmanns er, en nú virðist það liggja fyrir að hv. þingmaður hefði helst viljað samþykkja frumvarpið og vera staddur hér þegar það var gert, ef hann hefði haft svigrúm til þess, og er miður sín yfir því að forseti Íslands skuli hafa tekið þá ákvörðun sem hann tók.

Hv. þingmaður skildi ræðu hæstv. forsætisráðherra á þá leið að þar hefði verið um að ræða útrétta sáttarhönd, ræða sem snerist nánast eingöngu um að hnýta í stjórnarandstöðuna og forsetann og útlista hvað væri búið að valda miklu tjóni og að það þýddi ekkert að ræða við stjórnarandstöðuna. Ef hægt er að skilja ræðu hæstv. forsætisráðherra með þessum hætti skal ég í jákvæðni minni taka undir það, taka í þessa útréttu sáttarhönd og hitta hæstv. forsætisráðherra við fyrsta tækifæri.