138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hér eru margar hendur á lofti, misútréttar eða krepptar. Ég held þó að ég leyfi mér að taka undir með hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, og hv. þm. Bjarna Benediktssyni, að ég tel líka ljóst að við náum ekki nýjum lausnum í þessu máli með því að kallast hér á úr pontu. Og báðu þá ýmsir þingmenn um andsvör og ætla kannski að mótmæla mér um það.

Ég ætla að minna á að við erum saman komin hér af þeirri einföldu ástæðu að við ætlum að ræða frumvarp hæstv. dóms- og mannréttindamálaráðherra um fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, sem kemur í framhaldi af ákvörðun forseta Íslands um að synja þeim lögum staðfestingar sem voru samþykkt hér 30. desember og skjóta lögunum til þjóðarinnar. Það er eðlilegt að við ræðum það mál hér í dag hvernig fyrirkomulag þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu eigi að vera.

Hv. þm. Skúli Helgason benti réttilega á að það hafi kannski minnst verið til umræðu í dag enda þörf hv. þingmanna mikil fyrir að ræða hina nýju stöðu í málinu, eðlilega. Við erum líka minnt á að við stöndum nú og ræðum þetta fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu í þeirri stöðu sem við erum, að hér eru inni tvö ókláruð frumvörp um fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslna almennt. Við erum líka minnt á að þegar rætt var um endurskoðun stjórnarskrárinnar á vormánuðum lauk þeirri umræðu ekki. En þessi ákvörðun minnir okkur jafnframt á að það er mikil nauðsyn að taka þá umræðu upp, um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Við áttum okkur á því að það er í raun og veru merkileg staða, sem mikið hefur verið rætt um, líka í innlendum fjölmiðlum á undanförnum dögum, að staðan hér er sú að hluti þjóðarinnar getur ekki kosið að skjóta máli til þjóðarinnar, hluti þingmanna getur það ekki en málskotsrétturinn er forsetans. Umræðan hefur þó þróast frá árinu 2004 þegar ýmsir efuðust um málskotsrétt forseta þegar hann skaut fjölmiðlalögunum til þjóðarinnar, þau fóru raunar aldrei til þjóðarinnar.

Ég efast ekki um þennan málskotsrétt og finnst hann nokkuð skýr í stjórnarskránni, án þess þó að vera löglærð manneskja. En ég held hins vegar að það sé þörf á því að við tökum málefni stjórnarskrárinnar til umræðu og ræðum þau, bæði hver eigi að skjóta málum til þjóðarinnar og um hvaða mál eigi að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu, því að þau viðhorf hafa auðvitað líka verið uppi hvaða mál er unnt að halda þjóðaratkvæðagreiðslur um. Eru milliríkjasamningar til þess fallnir? Eru skattalagaákvarðanir til þess fallnar? Eru fjárlagaákvarðanir til þess fallnar að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu? Eru allar ákvarðanir til þess fallnar? Hvert erum við þá að þróa það stjórnskipulag og það stjórnarfyrirkomulag sem við erum með, því að þá breytum við því verulega? Ég held að öll þessi umræða sýni að það er full ástæða til að endurvekja umræðuna um stjórnarskrána og ræða hana á ný hér því að margar spurningar vakna við þetta.

Ég vil líka nefna það sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir kom hér inn á varðandi hlutlausan aðila sem ætti að annast upplýsingagjöf í kringum þetta mál. Það er í raun og veru merkilegt að þingmaðurinn nefndi þar tvö stærstu dagblöðin, að þau væru þegar búin að stilla sér upp í málinu eða taka afstöðu. Ég velti aðeins vöngum yfir þessari fullyrðingu því að ég tel auðvitað mjög mikilvægt að fjölmiðlarnir gegni sínu hlutverki sem aðhaldi. Ég vil sérstaklega nefna Ríkisútvarpið sem hefur það hlutverk að vera hlutlaus aðili og veita hlutlausar upplýsingar á hverjum tíma, tryggja lýðræðislega umræðu. Ég held, af því að þingmaðurinn kallaði eftir hlutlausri umræðu, að fjölmiðlarnir hafi mikilvægu hlutverki að gegna og ekki minnst Ríkisútvarpið í þessum efnum.

Ég held að leiðirnar í því frumvarpi sem hæstv. dómsmálaráðherra kynnti séu réttar af því að hér er um að ræða mál sem við þurfum að taka afstöðu til strax. Það er í raun og veru á ábyrgð okkar, það er búið að skjóta málinu til þjóðarinnar, það er ríkisstjórnarinnar að leysa úr þeirri ákvörðun forsetans með einhverjum hætti. Ég held að það sé réttara að gera það með lögum sem lögð eru fram um þessa tilteknu þjóðaratkvæðagreiðslu fremur en að ræða allar þær grundvallarspurningar sem ég varpaði hér upp áðan og tengjast m.a. stjórnarskránni en líka ýmsum öðrum þáttum.

Hvað varðar málið sjálft og það sem komið hefur upp í umræðu hér, að ríkisstjórnin hafi ekki verið nægilega undirbúin og annað slíkt, vissi ríkisstjórnin auðvitað að það gat brugðið til beggja vona í þessu máli, að forsetinn gat sagt já eða nei, ég held að öllum hafi verið það ljóst. Menn geta svo deilt um hvað þeim þótti um þau viðbrögð en þau voru undirbúin. Hins vegar held ég að þegar svona staða kemur upp sé hún glæný, raunar ekki á Íslandi af því að forsetinn hefur auðvitað gert þetta áður, að því leyti var það þó ólíkt þar sem hægt var á þeim tíma að setja málið til hliðar. En þetta mál setjum við ekki svo glatt til hliðar af því að þetta er milliríkjadeila sem málið snýst um. Við getum ekki sagt: Við skulum ekki ræða þetta í bili, eins og raunin varð um fjölmiðlalögin, heldur þurfum við að leysa málið á einhvern hátt. Að því leyti er staðan ný á Íslandi.

Erlendis hef ég séð í þeim fjölmiðlum sem ég hef náð að fylgjast með að þetta þykir merkilegt. Við fjölskyldan fengum bréf frá háskólakennara í Cambridge sem spurði hvort ríkisstjórnin hefði verið sett af, hann hefði ekki ráðið annað af viðtali sem hann sá við forseta Íslands í breskum fjölmiðli. Að sjálfsögðu má því segja að málstaður Íslands komi á ýmsan hátt út. Ég er ekki að segja að það hafi verið með ráðnum hug gert, allir hér í þessum sal og allir þeir sem fylgjast með fjölmiðlum vita að umræðunni verður ekki að öllu leyti stjórnað. Ég tel þó að íslenskir stjórnmálamenn og þeir ráðherrar sem hafa borið hitann og þungann af því að koma fram fyrir Íslands hönd, hæstv. forsætisráðherra, utanríkisráðherra og fjármálaráðherra, hafi staðið sig vel í því að koma málstað Íslendinga á framfæri, sem og allt starfsfólk utanríkisþjónustunnar, að þar hafi hver og einn reynt að gera sitt besta.

Við sjáum að viðbrögðin eru líka mismunandi. Fyrstu viðbrögð voru neikvæð, þau sveifluðust og urðu jákvæðari. Nú má segja kannski að rykið sé aðeins að setjast í umfjölluninni og hún færist í meira jafnvægi, ef svo má að orði að komast. Við sjáum það t.d. að ný skoðanakönnun meðal hollensks almennings sýnir að þar segir meiri hlutinn að Íslendingar eigi að borga lágmarkstrygginguna sem um ræðir. En það er líka ljóst af umfjölluninni að skilaboðin eru ekki alveg skýr og það kann ekki að vera neinu um að kenna öðru en því að umfjöllun í fjölmiðlum verður ekki alltaf stjórnað.

Ég tel að þessi umræða sé að jafna sig, ef svo má að orði komast, hún er að verða „ballanseraðri“. Ég vil líka nefna það að sagt var að utanríkisráðherra Noregs hefði komið og boðið fram hjálp. Að sjálfsögðu ræddi íslenski utanríkisráðherrann við utanríkisráðherra Noregs strax í kjölfar þessara atburða. Hann ræddi við alla norrænu utanríkisráðherrana, sendiherra og fleiri aðila. Hæstv. fjármálaráðherra er núna á ferð um Norðurlöndin að ræða við ráðamenn á þeim stöðum og hefur aukinheldur að sjálfsögðu rætt við viðsemjendur okkar. Það er því unnið mikið starf í því að halda málstað Íslands á lofti.

Ég held hins vegar, og það skiptir mjög miklu máli, og ég tek undir með hæstv. forsætisráðherra sem hér talaði, að það er komin upp ný staða. Það skiptir miklu máli, eins og hæstv. forsætisráðherra orðaði það, að loka ekki neinum dyrum í þeirri stöðu, að festa sig ekki í neinum skotgröfum, leyfi ég mér að segja, af því að það er nauðsynlegt að meta stöðuna upp á nýtt út af því sem ég fór hér yfir áðan. Það er nauðsynlegt í ljósi þess að ákvörðun forsetans er ný bæði á innlendum og erlendum vettvangi, hún breytir stöðunni. Hins vegar er það líka jafnljóst fyrir mér að það sem við erum að ræða hér í dag, sem er frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu, að það er algjörlega eðlileg afleiðing þess að ákvörðun forseta sem hann tók samkvæmt stjórnarskrá, býður okkur að undirbúa þessa þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er okkar skylda að gera það svo fljótt sem auðið er. Þess vegna erum við hér saman komin í dag og það er verkefnið. Þar með er ekki sagt að við ræðum ekki við umheiminn og skýrum stöðu okkar og þar með er ekki sagt að við getum ekki rætt hér saman. En ég er hins vegar ekki á því að það verði gert með einhverjum köllum úr pontu heldur held ég að það sé mjög nauðsynlegt að allir skoði þá nýju stöðu sem upp er komin og skoði hvaða möguleikar felast í henni. Ég held líka að verkefnið núna sé fyrst og fremst að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðsluna og það hefur ekkert gerst sem breytir því verkefni sem við þurfum að vinna hér í dag.