138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:47]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir orð hennar. Þetta var fyrsta rödd Vinstri grænna hér í dag og mér fannst hún hljóma skynsöm, hófsöm og framsýn. Mér fannst hún gera sér grein fyrir því ástandi sem við stöndum frammi fyrir og ég er algjörlega sammála henni um það að verkefni dagsins er að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðsluna. Enginn er að skorast undan því og ég vona að allir verði samhentir um það frumvarp sem hér er rætt og að sameiginleg niðurstaða náist. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að sú verði niðurstaðan eftir daginn.

Ég vil hins vegar spyrja hæstv. ráðherra varðandi þann sáttartón sem ég — ég gæti náttúrlega farið hina leiðina og sagt að ég hafi skilið ræðu forsætisráðherra hér áðan sem svo að handsprengju hafi verið kastað. Ég ætla hins vegar ekki að gera það, mér fannst ég greina ákveðinn sáttartón og þá líka hjá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Hvernig mundi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra til að mynda taka í þá hugmynd að skipuð yrði nefnd sérfræðinga eins og Lees Buchheits, Evrópusambandsins eða (Forseti hringir.) Stoltenbergs, hugsanlega allra, með bakhóp og bakstuðning frá forustumönnum allra stjórnmálaafla? (Forseti hringir.) Telur mennta- og menningarmálaráðherra ekki mikilvægt að öll stjórnmálaöflin komi að því að reyna að sameinast um það (Forseti hringir.) að styrkja stöðu Íslands gagnvart Hollendingum og Bretum?