138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:51]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sannfæring mín að við öll sem hér erum inni höfum unnið að þessu máli sem Íslendingar, en okkur hefur hins vegar greint á um það hvaða lausn sé best fyrir Ísland. Ég held að við eigum að horfast í augu við það að við höfum öll reynt að vinna þjóð okkar gagn en höfum ekki sömu skoðanir á því.

Hins vegar vil ég fagna þeim orðum þingmannsins að nú skipti máli að afgreiða það verkefni sem við eigum fyrir höndum og leita leiða til að skoða þessa nýju stöðu og finna einhverjar lausnir og helst auðvitað að reyna að finna einhverjar sameiginlegar leiðir sem sátt næst um.

Ég veit líka að ágreiningurinn hefur verið djúpstæður og hans sér enn stað í þeirri umræðu sem hefur verið hér í dag, en ég vona svo sannarlega að við munum í raun og veru ljúka verkefni dagsins og reyna í framhaldinu að finna nýjan tón í umræðuna.