138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:55]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru alltaf tækifæri til að vinna þjóðinni gagn og ég held að enginn telji að við séum hugsanlega að fara að halda þjóðaratkvæðagreiðslu eftir tvo mánuði og ætlum að sitja með hendur í skauti þangað til. Ég held að það liggi alveg fyrir að auðvitað verður unnið áfram að málinu og auðvitað er þegar unnið að því með þeirri vinnu sem hefur farið fram í öllum alþjóðatengslum, þannig að ég get í raun og veru ekki annað en svarað spurningu hv. þingmanns játandi.