138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[13:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hvet menn til að leggja við hlustir. Hér kom forustumaður í ríkisstjórninni, varaformaður Vinstri grænna og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, og talaði mjög skýrt. Ég vil bara enn og aftur þakka hæstv. ráðherra fyrir orð hennar og ég treysti því og veit að hæstv. ráðherra mun fylgja þessu eftir og það er alveg afskaplega mikilvægt. Ég tel mikilvægt að það gerist sem allra fyrst vegna þess að við þurfum líka að svara þeirri umræðu sem er í alþjóðasamfélaginu.

Ég hef ekki hrósað forseta fram til þessa en ég held að við getum verið sammála um það að hann hélt vel á málum fyrir hönd íslensku þjóðarinnar þegar hann ræddi við alþjóðlega fjölmiðla í gær, held ég að það hafi verið. Þannig þurfum við að gera þetta, við þurfum að útskýra málstað okkar og verja okkur, það verða ekki aðrir til þess. Ég tel því að einn liðurinn í þessu sé að við sameinumst um það að verja málstað Íslendinga á þessum tímum, því öll höfum við okkar tengsl í útlöndum.