138. löggjafarþing — 68. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[18:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Mig langar til að spyrja hana hvort það hafi komið til tals í nefndinni að taka upp rafræna kosningu eða hvort tíminn þyki of stuttur til þess. Nú treysta menn bönkum og menn millifæra og gera alls konar kúnstir og telja meira að segja þar fram til skatts. Það hefði mátt nota það kerfi sem allir landsmenn eru komnir inn í. Þetta var fyrsta spurningin.

Önnur spurningin varðar það sem hv. þingmaður kom inn á með kjördæmin. Mér finnst mjög miður að menn skuli fara þá leið að hafa þetta eftir kjördæmum. Þá vita menn hvernig kjósendur í ákveðnu kjördæmi kusu en menn hefðu alveg eins getað spurt um og fengið niðurstöðuna eftir kyni, aldri, fjölskyldutekjum o.s.frv., einhverju sem kemur málinu ekkert við. Ég tel að það hefði bara átt að vera einföld spurning og einfalt svar og ekki sundurliðað eftir kjördæmum.

Síðan er það spurningin sem kom fram í Morgunblaðinu , á mbl.is, um að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra segir að stjórnin fari frá. Hefur það verið rætt í nefndinni? Þá er verið að kjósa um eitthvað allt annað en Icesave-málið. Þá er kosið um stefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum eða hrifningu af vinstri stjórn og annað slíkt. Hvernig hefur nefndin hugsað sér það þegar menn eru farnir að blanda einhverju allt öðru inn í þetta, hvernig er hægt að útiloka það? Mér finnst að það eigi að útiloka það algjörlega.

Svo er kannski það sem er mest um vert: Við Íslendingar kunnum ekkert að fara í svona kosningar. Hverjir ætla að stunda kosningabaráttu og hvernig fer hún fram? Eru það þeir sem eru með eða á móti? Það geta ekki verið flokkar. Ég bara spyr: Hvernig sjá menn fyrir sér kosningabaráttu í sambandi við þetta?