138. löggjafarþing — 68. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[18:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svörin sem voru ágæt. En það er einmitt þetta síðasta, hvort ríkisstjórnin, sem væntanlega er samþykk lögunum því að þetta var hennar lagafrumvarp og hennar lög, beiti öllu sínu afli, þ.e. öllu afli Stjórnarráðsins til að skekkja kosningabaráttuna, hvort þeir sem eru andstæðir og vilja að þjóðin felli þessa glötuðu samninga — sem ég segi svo af því að ég er innilega á móti þeim — verði í miklu veikari stöðu til að stunda kosningabaráttu, og hvernig menn ætli að bregðast við því að jafna þann aðstöðumun. Það eru ákveðin samtök, ég nefni Indefence, og ég ætla að nota tækifærið, herra forseti, til að þakka alveg innilega fyrir mjög góða baráttu þeirra gegn þessu samkomulagi, hvernig eiga þeir sem eru mjög fjárvana að berjast við alla stjórnsýsluna sem stendur að baki ríkisstjórninni? Það er hætt við að þetta verði dálítið ójöfn kosningabarátta. Að öðru leyti þakka ég fyrir svörin. Þetta er eitthvað sem við Íslendingar þurfum að læra, hvernig við stundum slíka kosningabaráttu, þetta er nýtt fyrir okkur. Ég tel mjög mikilvægt að við förum með opnum huga í þetta nýja form, beint lýðræði.

Svo er það með hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem er farinn að blanda einhverju allt, allt öðru inn í þetta mál. Hann er farinn að blanda því inn í og hótar því í rauninni að ef þessi lagasetning verði felld fari ríkisstjórnin frá. Þá er hann að segja að þjóðin sé ekki að fara að kjósa um Icesave eða þennan samning, þetta lagafrumvarp, hún sé að kjósa um eitthvað allt, allt annað. Mér finnst það mjög varasamt og ég skora á hæstv. ríkisstjórn að draga þessi ummæli til baka.