138. löggjafarþing — 68. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[18:24]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er gaman að standa hér í dag og taka þátt í umræðu um fyrsta frumvarpið um þjóðaratkvæðagreiðslu síðan lýðveldið var stofnað 1944. Það var óvænt að þetta kom upp á borð okkar þingmanna því að ég hef tekið þátt í vinnu fyrir hönd Framsóknarflokksins í allsherjarnefnd og einnig í nefnd sem skipuð var af forsætisráðherra til að semja rammalög um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Eins og allir vita afgreiddi Alþingi lög um Icesave-málið 30. desember sl. og þar með var aðkomu Alþingis að málinu lokið. Það gerist síðan 5. janúar að forseti Íslands hafnar því að skrifa undir þau lög, þannig að nú er málið farið úr þingsölum, það er farið frá forsetanum og nú liggur þetta vald hjá þjóðinni og því ber að fagna að þessi réttur sé nú orðinn virkur á ný, að þjóðin geti sagt álit sitt á umdeildum málum eins og Icesave-málið er.

Framsóknarflokkurinn stendur heils hugar að þessu frumvarpi því að við erum hér fyrst og fremst í dag til að ræða frumvarpið þannig að málið fari í þann stjórnskipulega farveg sem því er ætlað og þetta lagafrumvarp er mjög vandað. Þegar ég sá frumvarpsdrögin fyrst hugsaði ég með mér: Þetta er fínt og Framsóknarflokkurinn getur alfarið staðið að þessu.

Það varð smá misskilningur í allsherjarnefnd því að eftir því sem frumvarpsdrögin segja til um er 3. gr. þar sem spurningin er borin upp alveg nákvæmlega eins og spurningarnar eða tillögurnar eru í því frumvarpi sem liggur fyrir þinginu frá ríkisstjórninni og Eiríkur Tómasson stjórnskipunarfræðingur og lögfræðingur kom og mæltist til að þetta yrði með þessum hætti. Svo þegar málið kemur inn í þingið til 2. umr. er komin breytingartillaga við 3. gr. sem ég er ekki sátt við að vissu leyti vegna þess að spurningin þar kemur ekki fyrr en seinast en á að mínu mati að koma á undan heiti laganna. Við skulum ekki gleyma því að það frumvarp sem hér liggur fyrir er fordæmisgefandi fyrir þá lagasetningu sem kemur til með að gilda, náum við samkomulagi um það að hafa rammalöggjöf um þjóðaratkvæðagreiðslur, enda sé ég ekki neitt annað en að sú lagasetning komi til með að ganga vel. Ég harma þetta, en við tókum stuttan fund áðan, nefndin, þar sem við komumst að samkomulagi um að ég mundi ekki vera á álitinu með fyrirvara heldur mundi ég fylgja nefndinni í þessu máli. En ég harma að þessi misskilningur hafi farið af stað og komið svona inn. Spurningin er mjög skýr í 3. gr. í upphaflega frumvarpinu og eins og hv. þm. Þráinn Bertelsson sagði á nefndarfundi í dag, hefur Icesave-málið hefur fengið svo mikla kynningu að sá sem ekki veit út á hvað það gengur á líklega ekki sjónvarp og hefur ekki fylgst með. Við verðum náttúrlega fyrst og fremst að treysta þjóðinni, þetta er ekki um það að einhverjar spurningar séu of flóknar fyrir þjóðina, 3. gr. gengur fyrst og fremst út á það að þessi spurning er lögð fyrir í atkvæðagreiðslu og raunverulega er það frumvarpsheitið sem á að koma inn í spurninguna en það vill svo óheppilega til að þessi fyrsta þjóðaratkvæðagreiðsla gengur út á það og lagaheitið á lögum 96/2009, sem voru samþykkt í sumar, er svo langt og því verður spurningin svona löng en það er ekki svo að það sé einbeittur vilji þingsins að flækja málið.

Framsóknarflokkurinn er ánægður með að taka þátt í þessu. Við styðjum þær breytingartillögur sem fram eru komnar með þeim athugasemdum sem ég gerði. Það er mikilvægt að samstaða ríki í þinginu um þetta mál því að málið er komið í þennan farveg og þannig stendur það og það er algjör samstaða í nefndinni um málið.

Mig langar aðeins að minnast á að í nefndinni var rætt um miðlægan talningargrunn og það var ákveðið að fara ekki þá leið núna. Formaður nefndarinnar var fullbrött að segja að það yrði í næsta frumvarpi, það er ekkert sem segir til um það, því að ég veit að í þjóðaratkvæðagreiðslum eins og í Noregi er talið eftir fylkjum þar alveg eins og við teljum eftir kjördæmum hér á landi. Það er ekki búið að taka ákvörðun um það til framtíðar að þetta verði á einum stað og þá líklega á höfuðborgarsvæðinu þegar þjóðaratkvæðagreiðslur verða haldnar.

Mig langar að minnast á það og ég spurði einmitt lögfræðinga, álitsgjafa sem komu fyrir nefndina í dag, hvort ástæða væri til þess að kveða á um það í þessu frumvarpi og lögunum að þetta sé bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla úr því að þetta er þjóðaratkvæðagreiðsla samkvæmt stjórnarskránni. Það var ekki talið þurfa þar sem þetta væri svo skýrt, en mig langar til að upplýsa það hér í ræðu að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla er bindandi, það þarf einfaldan meiri hluta og hún er bindandi út af því að kveðið er á um slíka þjóðaratkvæðagreiðslu í stjórnarskránni öfugt við það þegar og ef við förum í það að greiða t.d. þjóðaratkvæði um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Hún verður ekki bindandi eins og margoft hefur komið fram því að það er ekki ákvæði enn þá um fullveldisafsal í stjórnarskránni.

Að lokum langar mig til að segja að þetta eru miklar lýðræðisumbætur sem hér eiga sér stað. Framsóknarflokkurinn hefur haft það á stefnuskrá sinni nokkuð lengi að auka lýðræðið og talar fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðslur skuli haldnar. Þess vegna segi ég enn á ný að dagurinn í dag er merkilegur fyrir það að við skulum vera að setja lög um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég óska Íslendingum til hamingju með daginn og ég veit að þeir nota atkvæði sitt vel.